„Það hafa alltaf verið feikilegar deilur um fiskveiðistjórnunarkerfið hér á landi og þær eru enn töluverðar þótt þær hafi minnkað,“ segir Ágúst Einarsson prófessor, sem er nýbúinn að senda frá sér kennslubók fyrir framhaldsskóla um íslenskan sjávarútveg.
„Ástæðan fyrir því að það hafa verið svo miklar deilur um fiskveiðistjórnina er sú að þetta kerfi býr til til verðmæti sem heitir auðlindarenta. Og það gerist vegna þess að aðgangurinn er takmarkaður. En þá vakna spurningar um það hver á að fá rentuna. Á að skattleggja þetta sérstaklega til dæmis til að efla byggðir landsins.“
Hann rifjar upp að fyrstu árin hafi deilurnar reyndar einkum snúist um veiðimagnið.
„Þá voru allir landsmenn fiskifræðingar en núna eru menn farnir að viðurkenna fiskifræðingana sem þá aðila sem vita mest um þetta. Maður heyrir varla deilur um það lengur, en þetta var algengasta umræðuefnið fyrir um þrjátíu árum.“
Nýja bókin heitir Fagur fiskur í sjó og á að geta gagnast öllum almenningi ásamt því að nýtast til kennslu. Á síðasta ári kom út eftir hann bók um sama efni fyrir háskólastigið og er töluvert ítarlegri. Sú bók heitir Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi, en Ágúst segir mikilvægt að hér á landi sé til aðgengilegt kennsluefni um þessa mikilvægu atvinnugrein.
„Það hefur svo gífurlega margt breyst síðustu hundrað árin,“ segir Ágúst. „Sjávarútvegur sem atvinnugrein verður eiginlega ekki til hér á landi fyrr en seint á 19. öld, og eiginlega ekki fyrr en við byrjun vélbátavæðingar í upphafi 20. aldar. Hér hafði verið stöðnun í fleiri hundruð ár og það er ekki fyrr en við förum að nýta miðin í kringum landið af einhverri alvöru að hér fara hlutirnir að gjörbreytast. Og þá er það sjávarútvegurinn sem verður það afl sem kemur hér á betri lífskjörum. Þess vegna kalla ég tuttugustu öldina öld sjávarútvegsins, og það er örugglega réttnefni.“
Mikilvægusta atvinnugreinin
Hann segir engan vafa leika á því að sjávarútvegurinn er enn þann dag í dag mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar.
„Það má segja að hinar hefðbundnu veiðar og vinnsla standi undir 9 til 11 prósentum af landsframleiðslunni,“ segir Ágúst Einarsson prófessor, sem er nýbúinn að senda frá sér kennslubók fyrir framhaldsskóla um íslenska sjávarútveginn, „en þegar sjávarútvegurinn er skoðaður í heild þá skilar hann okkur ríflega 20 prósentum. Því sjávarútvegurinn hér á landi er svo miklu meira en bara veiðar og vinnsla. Til hans verður líka að telja til dæmis veiðarfæragerð og vélsmíði í tengslum við sjávarútveg, en þar erum við með stórfyrirtæki á heimsmælikvarða eins og Hampiðjuna og Marel og mörg önnur fyrirtæki. Þarna hefur orðið bylting. Og þetta gerir sjávarútveginn að mikilvægustu atvinnugrein landsmanna.“
Minna vinnuafl, meiri afköst
„Það vinna hins vegar færri í sjávarútveginum núna,“ bætir hann við, „og sú þróun mun halda áfram, því staðan á vinnumarkaðnum mun gjörbreytast bæði hérlendis og erlendis á næstu árum. Menn vita ekki alveg hvernig það fer en við höfum séð þessa þróun gerast hér í sjávarútveginum á síðustu árum.
Sjávarútvegurinn stendur líka alveg sér hér á landi hvað varðar framleiðni og afköst, því almennt eru afköstin hér og framleiðnin ekki mikil. Við höldum uppi framleiðninni með því að vinna lengi, bæði yfir ævina og yfir daginn. Fólk vinnur almennt lengur, og það á reyndar sérstaklega við um konur.
Svo er það þannig að vegna þess að færri vinna í greininni en áður þá er fólk almennt ekki eins tengt henni og það var. Og fólk áttar sig heldur ekki á því að sum fyrirtæki eru í raun sjávarútvegsfyrirtæki þótt þau séu ekki flokkuð þannig hvorki hjá Hagstofunni eða í hagsmunagæslu. Til dæmis Marel að stórum hluta, Hampiðjan og Icelandic og mörg önnur þjónustufyrirtæki. Þessi fyrirtæki eru hluti af sjávarútveginum þótt þau séu flest í Samtökum iðnaðarins.
Og það er þetta sem ég er að benda mikið á í bókinni hvað sjávarútvegurinn standi undir mörgum öðrum greinum og hvað það er mikilvægt að hann dafni vel til að hann geri þetta sem hann á að gera og það er að skapa verðmæti, það er að segja að nýta þessa auðlind okkar þannig að hún sé öllum til hagsbóta.“
Höfðatalan óþörf
„Langstærsta sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi er Samherji, sem er búið að hafa þann sess í mörg ár, er mikið stærra en næstu fyrirtæki á eftir samanlögð. Þetta er svo gífurlegt umfang. Samherja hefur gengið vel svo það er ævintýri líkast.“
Hann bendir á að bæði Samherji og Icelandic eru í hópi 40 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims.
„Þetta eru einu íslensku fyrirtækin sem spila í úrvalsdeildinni, og þau er í sjávarútvegi. Þar eru Íslendingar nú að spila með þeim bestu. Við erum til dæmis með fyrirtæki eins og Hampiðjuna sem er stærsti veiðarfæraframleiðandi i heimi.“
Og þetta segir Ágúst að Íslendingar þurfi að átta sig á.
„Fólk þarf að vita hvað sjávarútvegurinn er óstjórnlega mikilvægur fyrir okkur. Því auðvitað viljum við bæta lífskjörin hér, og þar eru nóg verkefni framundan. Það þarf að bæta menntakerfið og bæta heilbrigðiskerfið með vaxandi aldri þjóðarinnar. Víða i þessum innviðum hjá okkur er allt að því neyðarástand, og þá verðum við að gæta að því að skapa sem allra mest verðmæti. Og þetta er það sem sjávarútvegurinn hefur gert.“
Öflug frumkvöðlastarfsemi
Sjávarútvegurinn hefur um langt skeið verið í fararbroddi tækniþróunar í íslensku samfélagi.
„Nú orðið er mikið af tækjabúnaði í sjávarútveginum hér og það er allt meira og minna smíðað af íslenskum fyrirtækjum. Þetta var ekki svona fyrir nokkrum áratugum. Þá var allt innflutt, hver einn og einasti hlutur.“
Um skeið var öflugur skipasmíðaiðnaður hér á landi á síðustu öld, en þar kom að sá iðnaður hrundi.
„Og það gerðist einfaldlega vegna þess að launin erlendis voru miklu lægri, hvort sem það var í Póllandi eða nú orðið í Kína og Tyrklandi eða þar sem menn smíða skipin sjálf,“ segir Ágúst. „En núna er verið að framleiða hér búnað bæði í flotann og vinnslustöðvarnar og þessi fyrirtæki eru orðin miklu stærri en sjávarútvegur, eins og Marel er búið að þróa sig sem alhliða matvælavélafyrirtæki.“
Hver hefur styrk af öðrum
„Það er hins vegar svo mikið að gerast í sjávarútvegi núna. Það er svo mikil frumkvöðlastarfsemi eins og líftæknin öll. Það er sífellt verið að gera meira úr flakinu, úr hverju kílói af fiski. Nú er til dæmis verið að nota sjávarfang í lyfjagerð og meira að segja roð er notað til að græða sár.
Sjávarklasinn hérna í Reykjavík er þekkingarsetur þar sem hver hefur styrk af öðrum. Og þetta er gífurlega mikilvægt, að þekkingin safnist saman á ákveðnum svæðum þar sem hver hefur styrkleika af öðrum.
Við höfum séð þetta líka gerast á Suðurnesjunum í áratugi, þar sem var svo mikill sjávarútvegur og er enn, og er svo mikil nálægð og það sótti hver kraft til annarra, og þetta gerist reyndar í mjög mörgum atvinnugreinum í heiminum. Og menn eru núna að átta sig svolítið á þessu.
Þetta er kallað þekkingarflakk. Þekkingin berst á milli manna og þetta verður svolítið þannig í þessu að tveir plús tveir eru fimm,“ segir Ágúst og brosir.
Framseljanleikinn er lykilatriði
Ágúst er sannfærður um að framseljanleiki veiðiheimilda hafa verið lykilatriði í því að ná fram hagkvæmni í rekstrinum, jafnvel þótt það fyrirkomulag hafi sætt harðri gagnrýni hér á landi.
„Þetta er alveg eins og kaup og sala á hlutum í venjulega efnahagslífinu. Þeir sem eru slakir að reka verslun, þeir annað hvort fara á hausinn eða selja sína starfsemi. Þeir sem eru betur til þess fallnir taka þá við rekstrinum. Fólk er bara misjafnt í slíkum rekstri,“ segir Ágúst.
Sama gerist í sjálfu sér í útgerðinni. Fyrirtæki eru seld, hvort sem það er vegna kynslóðabreytingar eða viðkomandi standa sig bara ekki nógu vel. Þeir fara út og aðrir sem kunna betur með þetta að fara taka yfir. Framsalið er mjög nauðsynlegt fyrir þessa hagkvæmni.“
Ágúst segir þetta vissulega geta verið viðkvæmt mál.
„Með framsalinu getur það gerst að kvóti fari frá einstökum byggðarlögum til annarra byggðarlaga. Það getur þá haft áhrif á viðkomandi stað og þetta getur skapað mikið vandamál. Hins vegar er margt fleira en fiskveiðar sem hafa áhrif á byggðabreytingar. Það getur svo margt annað breyst,“ segir Ágúst.
„Margir staðir lágu til dæmis áður bara mjög vel við miðum, en það skiptir kannski ekki öllu máli nú orðið þegar skip eru orðin aflmeiri og komast yfir meira svæði. Þannig að það skiptir ekki öllu máli hvort menn eru að gera út á þessum stað eða öðrum. Svo sjáum við líka að fiskur er fluttur mikið á milli landshluta. Samgöngur hafa náttúrlega gjörbatnað á síðustu áratugum, þannig að það hefur margt annað orðið til að þrengja að ýmsum stöðum.“
Hagkvæmnin og réttlætið
„En það getur hins vegar orðið á kostnað hagkvæmninnar ef menn fara að úthluta kvótanum sérstaklega til þessara staða. Því það getur dregið úr hagkvæmninni. Það er alltaf þetta vandamál, hagkvæmnin og réttlætið, að finna hið rétta jafnvægi í því, og það er ekki auðvelt.“
Hagfræðingar virðast flestir nokkuð sannfærðir um að í þessu sé mikilvægt að hafa hagkvæmnina áfram að leiðarljósi. Ágúst er þar engin undantekning.
„Menn hafa sagt að hægt sé að taka peninga út úr greininni með skattlagningu eða veiðileyfagjaldi og nota þá peninga í annað sem talið er nauðsynlegt, til að að efla innviði til dæmis eða styrkja veikari byggðir. Þetta er auðvitað hægt, en verra er ef menn fara að gera þetta á kostnað hagkvæmninnar í greininni.“
Hann segir að margt hafi breyst hér á landi með þjóðarsáttinni upp úr 1990.
„Mikil verðmæti hafa orðið til með gjörbreyttri efnahagsstjórn. Þá komst loksins stöðugleiki á vinnumarkaðinn og efnahagsstjórnunina. Og það hefur gengið alveg ágætlega þar til hrunið kom, en við höfum nú unnið okkur nokkuð vel út úr því þó þar sé líka gífurlegt ósætti í samfélaginu einmitt út af því. Það er óuppgert ennþá tíu árum síðar.“
Af þessum sökum sé ósættið í samfélaginu nú líklega meira vegna hrunsins og aukinnar misskiptingar heldur en út af sjávarútvegskerfinu og fiskveiðistjórninni.
„Þannig að þetta deilumál hefur í sjálfu sér minnkað með tilliti til annarra viðkvæmra mála. En menn þurfa bara að passa sig á því að ef þeir vilja fara að breyta kerfinu að gera það ekki á kostnað hagkvæmni,“ segir Ágúst.
„Það er svo sem hægur vandi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. En ef það er gert á kostnað hagkvæmninnar, þá erum við bara um leið að rýra lífskjör. Og það er ekki skynsamlegt.“
Sóknarfæri í fiskeldinu
Þessa dagana er fiskeldið í brennidepli og sitt sýnist hverjum. Ágúst segir að Íslendingar þurfi að fara varlega þar en sóknarfærin séu samt mörg.
„Það má segja að Íslendingar hafi setið af sér fjölmörg tækifæri í fiskeldinu.“
Hann bendir á að fiskeldið sé orðinn langstærsti þátturinn í sjávarútvegi Norðmanna, og fiskeldi í Færeyjum er mörgum sinnum meira en hér á Íslandi.
„En svo þegar við ætlum að fara í þetta eins og núna þá erum við kannski að fara of geyst og náum ekki sátt við aðra. Þess vegna verður þetta svona umdeilt. Í fiskeldinu eru menn að reka sig á sama hlutinn og menn gerðu áður með fiskveiðistjórnunarkerfið: hlutirnir eru ekki ræddir almennilega og þeir eru gerðir í ósætti.“
Íslenska síldarævintýrisgenið
Hann segir það löngum hafa einkennt Íslendinga að fara með miklu offorsi í hlutina. Það vanti að byggja hlutina rólega upp.
„Ég kalla þetta síldarævintýrisgenið okkar. Það voru tvö svona síldarævintýri hér á landi á 20. öldinni, fyrst upp úr 1920 og 30 og svo á sjöunda áratugnum, og það endaði með ósköpum í bæði skiptin. Og svo þegar við á síðust öld byrjuðum á fiskeldinu þá ætluðu allir að verða ríkir á því, og það fór allt á hausinn. Það sama gerðist í loðdýraeldinu, og það má segja að útrásin á þessari öld sé einmitt dæmi um þessa hegðun okkar. Þetta fór náttúrlega allt fjandans til. Og svo segja sumir það um ferðaþjónustuna hjá okkur að hún er nú svolítið dæmi um þetta líka.“
Hann segir þessa hvatvísi Íslendinga vissulega hafa sína kosti en nú orðið séu samfélög orðin þannig að það þarf vandaðan undirbúning: „Menn komast ekkert áleiðis í efnahagslífi án þess lengur að byggja hlutina upp með góðum undirbúningi. En þetta er svolítið eðli okkar Íslendinga, og því verður kannski ekkert breytt í grundvallaratriðum. Við þurfum kannski bara að lifa svolítið betur með því.