Frystitogari Síldarvinnslunnar í Neskaupstað - Blængur NK - hefur verið að veiðum í Barentshafi í um mánaðartíma. Í kvöld mun skipið koma til hafnar í Kirkenes í Norður-Noregi og í fyrramálið mun áhöfnin fljúga frá Kirkenes til Osló og þaðan rakleiðis til Íslands. Veiðarnar hafa gengið vel og framundan sjómannadagshelgi.

Heimasíða fyrirtækisins ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið.

„Það má segja að hún hafi gengið vel en reyndar vonuðumst við eftir heldur meiri og jafnari veiði þó svo að fiskiríið hjá okkur hafi verið betra en hjá mörgum öðrum togurum á svæðinu. Við erum búnir að fá rúmlega 1.000 tonn upp úr sjó. Þar af er þorskur tæplega 900 tonn en síðan er þetta helst ýsa og ufsi. Veðrið hefur verið frábært nánast allan túrinn. Það kom bræla í einungis einn sólarhring en annars er þetta eins og að vera inni á firði. Gert er ráð fyrir að áhöfn skipsins fljúgi út á miðvikudag í næstu viku en eftir er að veiða um 440 tonn af þorskkvótanum og um 50 tonn af ýsukvótanum. Síðan mun skipið væntanlega koma heim og landa í Neskaupstað en enginn afli mun fara á land í Kirkenes. Sjómannadagshelgin er framundan og við erum spenntir að koma heim og njóta hennar, það er hörkustemmning í hópnum,“ segir Theodór í viðtalinu.

Heimasíða Síldarvinnslunnar bætir því við til gamans að Kirkenes er 3.500 manna bær skammt frá rússnesku landamærunum. Saga Kirkenes er áhugaverð en í síðari heimsstyrjöldinni voru yfir 300 loftárásir gerðar á bæinn en hann var mikilvæg bækistöð þýska hernámsliðsins. Þegar Þjóðverjarnir yfirgáfu síðan nyrsta hluta Noregs í lok stríðs brenndu þeir Kirkenes og lögðu bæinn algjörlega í rúst.