Nokkuð er um liðið síðan áhöfnin á Kristrúnu RE varð fyrir því óláni í svartaþoku að sigla á borgarísjaka í Grænlandssundi. Talsverðar skemmdir urðu á kinnungi og rekkverki en mannskapinn sakaði ekki. Nú er unnið að viðgerðum á skipinu hjá Slippnum á Akureyri og vonast er til að hægt verði að halda til veiða á grálúðu fyrir næstu mánaðamót.
Færri ferlíki en undanfarið
Helgi Aage Torfason skipstjóri segir að oft megi eiga von á borgarísjökum á þessum slóðum. Í fyrra hafi fjöldi slíkra ferlíkja verið á sveimi. Þó hafi dregið verulega úr því og þeir verið færri undanfarið en oft áður.
Skipið var á sex mílna ferð þegar áreksturinn varð. „Þetta var bara eins og að keyra á vegg. Svo vorum við bara stopp en bökkuðum svo frá í rólegheitunum. Það gekk sem betur fer allt vel eftir það og sem betur fer engin slys á mönnum. Það kom þessi dæld en enginn leki kom neins staðar að skipinu,“ segir Helgi sem segir Kristrúnu feykilega sterkbyggt skip í góðum ísklassa.

200 tonn í túr
Skipið hét áður Argos Foyanes og var í eigu norskrar útgerðar. Það er tæpir 49 metrar á lengd og 11 metrar á breidd. Kristrún RE hin nýja er gerð út af Fiskkaup í Reykjavík og leysti af hólmi eldra skip með sama nafni í byrjun síðasta árs.
„Það hefur gengið ágætlega á lúðunni en við förum langt að sækja hana. Við erum í alltaf í útköntunum í kringum landgrunnið hérna vestan-, norðan- og austanvert við landið og mikið úti í Grænlandssundi,“ segir Helgi.
Í kringum 80% af löndunum Kristrúnar er á Akureyri og afgangurinn í Reykjavík. úthöldin eru gjarnan í kringum fjórar vikur. Farnir eru yfirleitt um tólf túrar á ári og í áhöfn skipsins eru 23. Tvær áhafnir eru á skipinu og skipstjóri á móti Helga er Pétur Karlsson.

© Þorgeir Baldursson (.)
„Við viljum helst ná yfir 200 tonnum í túr og yfirleitt gengur það. En það er bara rétt rúmt ár síðan við byrjuðum á þessu skipi. Þetta ár hefur gengið alveg þolanlega eftir að við fengum hjólin til að snúast almennilega.“
Grálúðan er hausuð og sporðskorin og svo heilfryst í stærðarflokka. Þetta er hefðbundin grálúðuvinnsla eins og tíðkast á þeim skipum sem stunda þessar veiðar eins og hjá Brim og Samherja svo dæmi séu tekin.