„Miðað við þróunina sem hefur verið búumst við því að sjáum áfram aukningu í hnúðlaxastofnum í Atlantshafi og þar á með talið í okkar ám,“ segir Guðni Guðbergs­son, sviðsstjóri ferskvatns- og eld­is­sviðs Haf­rann­sókna­stofn­un­ar.

Guðni Guðbergsson.
Guðni Guðbergsson.

Hnúðlaxinn  hefur verið að að auka útbreiðslu sína í Atlantshafi. Stofninn sem gengur í árnar á oddaárum hefur verið stærri en Guðni segir að  nú sé farin að sjást aukning í göngum  hjá jafnaársstofninum.

Hnúðlax getur að sögn Guðna komið í mjög miklu magni. Ef hann fari að koma hér í tug þúsunda eða hundruð þúsunda tali eins og í Noregi sé nauðsynlegt að rannsaka hvað hann beri með sér. Hafrannsóknarstofnun óski eftir því að veiddum hnúðlöxum sé komið til stofnunarinnar.

Norðmenn orðnir tvístígandi

Í Noregi, þar sem mikið hnúðlaxaár var 2023, var beitt ýmsum aðferðum til að reyna hefta för hnúðlaxa upp í ár sem hýsa náttúrlega stofna laxfiska. Guðni segir Norðmenn halda þessu áfram í sumar.  „Að hluta til voru veiðifélög í Noregi að gera þetta í sjálfboðavinnu. Og það er kannski ekki auðvelt að stíla inn á það til lengri tíma,“ segir hann. Varnaraðgerðir sé bæði dýrar og eins geta haft óæskilegar hliðarverkanir.

„Norðmenn hafa verið að velta því fyrir sér í fullri alvöru hvort að það að loka ám og tefja þannig uppgöngu á sjóbleikju, sjóbirtingi og laxi geti mögulega haft meiri neikvæð áhrif á þá stofna heldur en að hnúðlaxinn myndi hafa ef það væri ekki reynt að fækka honum,“ segir Guðni og nefnir hina gríðar stóru á Tana á landamærum Noregs og Finnlands. „Þar voru menn að hafa áhyggjur af því að mannvirkið sem var verið að setja upp til að hefta uppgöngu hnúðlaxa gæti líka verið að valda hækkandi dánartölu gönguseiða Atlantshafslaxa á leið til sjávar.“

Enginn mannlegur máttur sem ræður við það

Varðandi aðgerðir hér nefnir Guðni að veiðifélög og veiðiréttarhafar geti fengið heimild Fiskistofu til þess að beita veiðitækjum sem annars séu ólögleg til að ná hnúðlaxinum. Oftast sé það þá fyrirdráttur með netum.

„Í einhverjum tilfellum þegar menn fóru af stað urðu þeir of seinir og stór hluti af hnúðlaxinum var hrygndur þegar að menn voru að veiða,“ segir Guðni. Einhverjir séu nú þessum stellingum og eftir eigi að koma í ljós hverju það skili.

„Það sem Norðmenn eru að gera núna, að reyna að stemma stigu við fjölgun hnúðlaxa, er kannski eins og að ætla stoppa rigninguna, það er enginn mannlegur máttur sem ræður við það,“ segir Guðni en bætir þó við að fyrirtækið Huawei hafi  þróað búnað og gervigreind  sem þekki hnúðlaxa frá laxi. Þetta hafi verið prófað í Noregi á kostnað Umhverfisstofnunarinnar þar.

Ágeng og framandi tegund?

„Þar er hlið sem opnast þannig að Atlantshafslaxinum er hleypt upp í ána en hnúðlaxinn er tekinn frá og settur í búr sem hægt er að tæma. Þannig að slíkt er mögulegt svo framarlega sem hægt er að halda fyrirstöðum uppi vegna vatnavaxta,“ segir Guðni. Hann hafi heyrt að slíkur búnaður kosti yfir tuttugu milljónir króna auk sem leggja þurfi út fyrir rekstrarkostnaði.

„Ef að við myndum skilgreina hnúðlaxinn sem ágenga, framandi tegund þá myndu alþjóðlegar skuldbindingar okkar í gegn um sáttmálann um vernd líffræðilegs fjölbreytileika verða til þess að stjórnvöldum bæri að gera eitthvað í því að stemma stigu við innrás þessarar framandi tegundar,“ bendir Guðni Guðbergsson á.