Snjókrabbi veiddur í Beringshafi er mikilvæg nytjategund fyrir fiskimenn í Alaska. Afkoma þeirra rýrnar hins vegar umtalsvert á næsta ári því stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa tilkynnt að kvótinn verði skorinn niður um 40% milli ára og verði aðeins 18.400 tonn.
En eins dauði er annars brauð í þessum atvinnuvegi eins og öðrum. Snjókrabbaveiðar eru ný veiðigrein í Barentshafi og fiskimenn þar gera sér góðar vonir um að stórminnkað framboð á krabbanum vegna kvótasamdráttarins í Beringshafi leiði til þess að verðið á heimsmarkaði hækki verulega því hér er um sömu vöru og sömu markaði að ræða.
Í Fiskeribladet/Fiskaren kemur fram að sem af er árinu hafi 7.600 tonnum af snjókrabba verið landað í Noregi, þar af 2.700 tonnum af norskum skipum.