Nýr Baldvin Njálsson GK verður afhentur eigendum sínum 20. nóvember næstkomandi gangi öll plön eftir frá skipasmíðastöðinni Armon í Vigo á Spáni. Skipið er smíðað fyrir Nesfisk í Garði og hannað af íslenska skipahönnunarfyrirtækinu Skipasýn. Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri Skipasýnar segir Baldvin Njálsson verða einn tæknivæddasta skuttogara flotans.
Nú stendur yfir lokafrágangur á skipinu og prufusiglingar suður á Spáni. Skipstjóri og vélstjórnarmenn eru á staðnum og áhöfnin er væntanleg. Stefnt er að því að prófa veiðarfæri í skipinu 17. og 18. þessa mánaðar. Heimsiglingin mun líklega taka rúma viku og má því áætla að Baldvin Njálsson komi til heimahafnar nær mánaðamótum nóvember/desember. Skipið verður því sem næst klárt á veiðar og ætti að komast í einhverja reynslutúra í desember. Vænta má að einhvern tíma taki að fínslípa allt um borð því skipið er búið miklum og stórum vinnslukerfum og flóknu tölvukerfi.
Nýi togarinn leysir eldra skip með sama nafni af hólmi sem var líka smíðað hjá Armon á Spáni árið 1990. Það var selt til Rússlands í júlí síðastliðnum. Á hann voru skráð 1.566 þorskígildistonn.
Nýr Baldvin Njálsson er 66,3 metrar á lengd og 16 metrar á breidd. Skipið er með um 4.000 hestafla aðalvél frá Wärtsilä og skrúfan er 5 metrar í þvermál. Nýr Baldvin Njálsson verður í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki.
Nesfiskur hefur haft fulltrúa sinn á staðnum allt frá því að smíði skipsins hófst haustið 2019. Búnaður fyrir vinnsluna og millidekkið kemur að stærstum hluta frá Optimar og vélsmiðjunni Klaka.
Tvær brettavæddar lestir
Skipið er með tveimur lestum og í þeim er vöruhótel þar sem flokkaður fiskur fer frystur á bretti. Á millidekkinu er flökunarvél og sjálfvirkur frystibúnaður sem er einkar mannaflssparandi tæknibúnaður. Lestin er á tveimur hæðum og samtals er rúmmál hennar 1.600 rúmmetrar.
- Skipið er allt hið glæsilegasta – að utan sem innan. Aðsend mynd
Stóra byltingin í þessu nýja skipi er brettavæðingin. Skipulagið kallast vöruhótel og felst í þjarka sem tegundar- og stærðarflokkar fiskinn og beinir afurðum að sjálfvirkum pökkunarbúnaði. Brettastaflari staflar pökkuðum afurðum á brettin. Við löndun eru þau tilbúin og tegundarflokkuð til útflutnings. Þetta dregur úr öllu umstangi við löndun og ennfremur verulega úr kostnaði við landanir.
Það verða í raun tvær brettavæddar lestar í skipinu því milligólf er eftir lestinni endilangri. Þetta gefur færi á eins eða tveggja bretta hæð í hvorri lest í stað allt að fjögurra bretta hæð í einni lest. Þetta er ákjósanlegt upp á stöflun í vondum veðrum og gagnvart notkun lyftara í lestunum.