Mikið var um dýrðir í Grindavík í gær er Einhamar tók á móti tveimur nýjum bátum, Auði Vésteins SU og Gísla Súrssyni GK. Bátarnir eru smíðaðir hjá Trefjum ehf. Þeir eru 15 metrar að lengd og um 30 brúttótonn.

Auður Vésteins SU og Gísli Súrsson GK
Auður Vésteins SU og Gísli Súrsson GK
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Stefán Kristjánsson, framkvæmdastjóri Einhamars, segir í samtali við Fiskifréttir að tilgangurinn með fjárfestingu í nýjum bátum sé að afla hráefnis fyrir landvinnsluna. „Bátarnir verða gerðir út á línu og eru talsvert stór fjárfesting. Hvor bátur kostar á bilinu 170 til 180 milljónir króna með öllum búnaði. Þarna er allt til alls og siglingabúnaður, vél- og kælibúnaður eins og hann gerist bestur,“ segir Stefán.

Bátarnir eru yfirbyggðir Cleopatra 50. Aðalvélin er af gerðinni Doosan og er 880 hestöfl. Fullkomið blóðgunar- og kælikerfi er á millidekki frá 3X Technology. Beitningarvél frá Mustad er um borð. Haukur Einarsson er skipstjóri á Auði Vésteins og Haraldur Björnsson á Gísla Súrssyni.