Tillögur um breytt fyrirkomulag á úthlutun byggðakvóta snúast um að ferlið verði gegnsærra og einfaldara. Kynnt er til sögunnar ný reikniregla sem á að gera úthlutunina á þeim 12.200 tonnum sem til ráðstöfunar eru nokkuð fyrirsjáanlega til framtíðar.
Starfshópurinn, sem fékk það verkefni að móta þessar tillögur, gekk út frá þeirri forsendu að ekki sé mögulegt að tryggja atvinnu og byggð „í öllum sjávarbyggðum landsins með úthlutun 12.200 tonna kvóta. Þessar aflaheimildir nýtast best til að styrkja minnstu sjávarbyggðirnar sem hafa átt erfiðast með að aðlagast breytingum í sjávarútvegi,“ segir í lokaskýrslu starfshópsins.
Eitt tonn á íbúa, plús fækkun …
Reiknireglan er sem hér segir. Miðað er við meðalfjölda íbúa í byggðakjörnum árin 1980-83, en það eru síðustu árin áður en kvótakerfið var tekið upp. Úthlutað verði einu tonni fyrir hvern íbúa upp að 500 íbúum, en úthlutunin lækki um eitt tonn fyrir hvern íbúa umfram 500. Síðan hækki úthlutunin um eitt tonn fyrir hvern íbúa sem fækkað hefur í byggðarlaginu en lækki um eitt tonn fyrir hvern íbúa sem fjölgað hefur, og er þá miðað við íbúafjöldann eins og hann var orðinn að meðaltali á árunum 2013 til 2016.
Þóroddur Bjarnason, formaður starfshópsins, segist ekki hafa orðið var við annað en að nokkuð almenn ánægja sé meðal smærri sjávarútvegsbyggða í landinu með þessar tillögur.
Gauti ósáttur
Engu að síður hefur komið fram nokkur gagnrýni og þar fer Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, fremstur í flokki. Hann segir það skjóta skökku við að „samkvæmt reiknireglunni eru það einmitt þær tvær byggðir sem hafa átt mest undir högg að sækja, þ.e. Djúpivogur og Breiðdalsvík, sem verða fyrir skerðingu á úthlutuðum byggðakvóta frá því sem nú er hér eystra.“
Samkvæmt reiknireglunni er gert ráð fyrir að Djúpivogur fái 444 tonn af kvóta, sem er 263 tonnum minna en núverandi fyrirkomulag tryggir byggðarlaginu. Hins vegar er í tillögunum reiknað með að Djúpivogur haldi næstu tíu árin, rétt eins og önnur sveitarfélög, hinum sérstaka byggðakvóta sem Byggðastofnun hefur úthlutað vegna sérstakra aðstæðna. Sá kvóti nemur 800 tonnum, en það sem breytist er að þessi sérstaki kvóti á ekki að bætast við almenna kvótann eins og verið hefur. Það þýðir að Djúpivogur fær einungis þessi 800 tonn en missir þau 263 tonn sem sveitarfélagið hafði í almennan kvóta.
Áfram langhæstir
Þóroddur vísar hins vegar gagnrýni Gauta á bug:
„Af öllum byggðarlögum hefur Djúpivogur hefur haft langmest í sérstökum byggðakvóta af öllum byggðarlögum, tvöfalt meira en nokkurt annað sveitarfélag,“ segir Þóroddur, „og síðan hafa þeir fengið almenna byggðakvótann til viðbótar. Samkvæmt tillögun eru þeir áfram langhæstir þannig að það er ekki þannig að Djúpivogur sé að fara illa út úr þessu.“
Gauti, sem er formaður stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, fagnar því reyndar að í þessum tillögum sé gert ráð fyrir fastri úthlutun til lengri tíma: „Það tryggir meiri yfirsýn fyrir alla sem að útgerð og fiskvinnslu koma á hverjum stað. Það er svo umdeilanlegt hvort tíminn hefði jafnvel mátt vera lengri en þessi 10 ár,“ segir hann.