Síðustu vikuna hefur verið mikið fjallað um einelti og áreitni um borð í fiskiskipum  og í fiskvinnslufyrirtækjum. Sú umræða er þörf, enda er einelti og áreitni á vinnustað ólíðandi, auk þess að vera brot á vinnuverndarlöggjöf. Nýleg rannsókn Salóme Rutar Harðardóttur á lífsánægju og starfsumhverfi  íslenskra sjómanna bendir til þess að allt of margir sjómenn hafi orðið fyrir einelti eða orðið vitni að því síðustu sex mánuði, eða 39%.

Nýleg starfsánægjukönnun sem Austurbrú framkvæmdi fyrir Síldarvinnsluna bendir til þess að um 5% sjómanna Síldarvinnslunnar hafi einhvern tímann upplifað einelti og að 25% þeirra hafi einhvern tímann orðið vitni að slíku. Það er lægra hlutfall en í könnun Salóme, en undirstrikar samt þörfina fyrir það að vinna markvisst að því að uppræta einelti.

Síldarvinnslan hefur síðustu misseri lagt aukna áherslu á að einelti verði ekki liðið og að tilkynningar eða grunur um slíkt verði tekinn alvarlega og var til að mynda nýlega haldið vandað námskeið fyrir starfsmenn um einelti og viðbrögð við því. Jafnframt er skýrt tekið fram í starfsmannastefnu fyrirtækisins að einelti og áreitni af öllu tagi sé algerlega óheimil. Að auki verður gripið til frekari aðgerða sem greint er nánar frá á vef Síldarvinnslunnar .