,,Aðstæður á miðunum fyrir austan land voru mjög óvenjulegar í sumar. Makríllinn gekk inn í lögsögu okkar í mun ríkara mæli en við áttum að venjast og hann var blandaður síldinni sem við vorum að veiða, þannig að ekki var auðvelt að átta sig á því hver kvótinn þyrfti að vera til þess að veiðarnar í heild gætu gengið upp. Af þessum ástæðum var eðlilegt að íslensk stjórnvöld hefðu ekki tóm til að bregðast við.”

Þetta sagði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra þegar Fiskifréttir báru undir hann gagnrýni norskra stjórnvalda á óheftar veiðar Íslendinga úr makrílstofninum í ár.

Ann Kristin Westberg deildarstjóri í norska sjávarútvegsráðuneytinu og aðalsamningamaður Norðmanna í makrílviðræðunum segir að þótt Ísland hafi ekki viðurkennt niðurstöðurnar um skiptingu makrílkvótans beri því að hlíta almennum reglum NEAFC, sem kveði á um að viðkomandi ríki verði þá að setja sér sjálfstæðan kvóta í umræddum veiðum.

Westberg segir ennfremur að hinn mikli makrílafli Íslendinga á þessu ári mun hafa áhrif á kvótakvörðun fyrir næsta ár, hvort sem Íslendingar verði með í samningaviðræðunum eða ekki. Íslenskum stjórnvöldum hefur ekki ennþá verið boðið að samningaborðinu.

Nánar er fjallað makrílmálið í Fiskifréttum sem komu út með Viðskiptablaðinu í dag.