Framundan er mikil uppbygging landsvinnslu fyrirtækisins G. Run á Grundarfirði. Skóflustungur hafa þegar verið teknar að 2.500 fermetra byggingu þar sem verða tvær vinnslulínur og er áætlað að afkastagetan aukist um 40% með nýja húsinu. Landvinnslan verður ein sú fullkomnasta á landinu.

Á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni IceFish um miðjan mánuðinn var undirritaður verkssamningur milli G. Run og Frostmarks ehf. í Kópavogi um hönnun, smíði og uppsetningu á nýjum kæli- og frystibúnaði. Um er að ræða allan búnað til kælingar og frystingar samkvæmt ítrústu kröfum í nútímalega tæknivæddu frystihúsi. Lausfrystarnir afkasta um tveimur tonnum á klukkutíma og hugsað meira fyrir karfa og minni bita.

Milljarður í leiðréttingu

Forsaga þess að ákveðið var að ráðast í þessar miklu framkvæmdir á Grundarfirði er sú að fyrirtækið fékk leiðréttingu vegna ofgreiddra vaxta upp á einn milljarð króna þegar það vann dómsmál gegn Landsbankanum fyrir Hæstarétti í desember 2016. Sagt var frá byggingaráformunum fyrst í Fiskifréttum í júní síðastliðnum undir fyrirsögninni Byggt fyrir milljarðinn.

„Við ætlum að byggja við gamla frystihúsið hús upp á 2.400-2.500 fermetra þar sem verður eitt fullkomnasta landvinnsla landsins. Við gerðum einn stærsta einstaka samning sem gerður hefur verið við Marel um kaup á tveimur vatnskurðarvélum og öllum búnaði í kringum þær. Við keyptum einnig búnað frá Skaganum 3X. Í þessu húsi ætlum við að vinna allar tegundir af bolfiski og auk þess karfa. Áherslan verður á vinnslu á ferskum fisk. Við verðum einnig með tvo stóra lausfrysta sem skila mun fallegri afurðum,“ segir Unnsteinn Guðmundsson, einn af eigendum G. Run.

Gríðarleg afkastaaukning

Unnsteinn segir að vatnskurðarvélarnar opni landvinnslunni alveg nýja möguleika. Afköst aukist gríðarlega en þó standi ekki til að fækka fólki. Nýting aukist ennfremur í dýrari pakkningar því nú verði það ekki mannshöndin sem ráði heldur tölvur og tölvusjón.

„Önnur vatnskurðarvélin sem við höfum keypt verður sérstaklega þróuð fyrir vinnslu á karfa. Hún gerir okkur kleift að skera beinagarð úr karfa eða hnakkastykki eða hvað sem er. Um leið lágmörkum við alla yfirvigt með þessum nýja búnaði. Þetta er þróunarvinna sem þarf að vanda vel til. Við höfum unnið að því í á þriðja ár að teikna húsið og gaumgæfa búnað í húsið. Hin vatnskurðarvélin verður fyrir bolfisk; ufsa, ýsu og þorsk.“

Kallar á meira hráefni

Velta G. Run var rétt um tveir milljarðar á síðata ári. Með nýrri vinnslu verður veltuaukningin væntanlega á bilinu 40-50%. Helmingurinn af tekjum fyrirtækisinsx árið 2015 var af ferskum fiski. Með nýja húsinu er stefnt að því að tveir þriðju hlutar teknanna verði af ferskum fiski sem er fluttur út með skipum og flugi, mest til Bretlands og Frakkland.

G. Run vinnur nú úr um rúmum 4.000 tonnum á ári en hefur í raun búið yfir meiri aflaheimildum en fyrirtækið hefur náð að vinna. Með nýju húsi og nýrri tækni er stefnt að 40-50% afkastaaukningu í húsinu en þess að fjölga starfsmönnum.

„Það stefnir því í það að okkur vanti enn meiri aflaheimildir. En við erum svo vel í sveit settir að við hliðina á okkur er Fiskmarkaður Íslands og þar er miklum afla landað. Við verðum samkeppnishæfari við þessar framkvæmdir að kaupa meira af fisk á markaði. Við höfum verið að vinna um 18 tonn af dag fimm daga vikunnar en förum upp í 50 tonn á dag ef við erum eingöngu að vinna karfa. Nú ætlum við að gera þetta samhliða og vinna tvær tegundir í einu. Veiðarnar hafa breyst svo mikið og sóknarstýringin þannig að nú fáum við bara það hráefni sem hentar hverju sinni. Samtals stefnum við að því að vinna um 35 tonn á dag af tveimur tegundum. Við stöndum því frammi fyrir þörf á mun meira hráefni sem verður leyst með kaupum á aflaheimildum og meiri kaupum á fiskmarkaði,“ segir Unnsteinn.

Verklegar framkvæmdir eru ekki hafnar en áformað er að fiskvinnsla verði hafin í nýju húsi haustið 2018. Verið er að ljúka öllum teikningum en fyrsta skóflustungurnar voru teknar af nærri 100 börnum frá Grundarfirði á sjómannadaginn.