Í byrjun sumars hófust viðfangsmiklar hvalatalningar við landið, þegar rannsóknarskipið Árni Friðriksson lagði í hann frá Hafnarfirði. Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar.
„Þessar talningar eru hluti af svokölluðum NASS talningum (North Atlantic Sighting Survey), en þær hafa verið framkvæmdar reglulega síðan 1987, og eru talningar sumarsins þær sjöundu í seríunni. Auk Íslands taka Noregur, Færeyjar, og Grænland þátt í talningunni, en auk þess eru Kanada og Skotland með álíka talningar á sama tíma,“ segir á hafro.is.
Víðari fókus í seinni tíð
„Í upphafi þessa talninga var markmiðið að meta stofnstærðir nytjategunda, langreyða og hrefnu við Ísland, grindhvala við Færeyjar, hrefnu við Noreg, og hnúfubak, langreyða og hrefnu við Grænland. Í seinni tíð hefur fókusinn víkkað, og hafa þessar talningar veitt okkur grunnupplýsingar um samfélög hvala við landið, og verið grunnur fjölda vísindagreina um ýmis efni, eins og breytingar í útbreiðslu og stofnstærð og fleira,“ segir áfram á vef Hafró.
Fram kemur að talningargarnar séu skipulagðar af Norður-Atlantshafs spendýraráðinu (NAMMCO), með þátttöku allra þjóða, auk þess sem aðferðafræðin sé rýnd af utanaðkomandi sérfræðingum.
Mjög víðfemt talningarsvæði
„Skemmtilegt er að segja frá því að talningarnar eru ein af stærstu dýratalningum í heimi, enda talningarsvæðið mjög víðfemt.“
Af Íslands hálfu eru það rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson sem taka þátt í talningunni. Önnur þátttökulönd er Færeyjar, Noregur, Grænland og Skotland.
„Á hverju skipi eru átta hvalatalningarmenn um borð, og unnið er á tveggja tíma róterandi vöktum en talið er á tveimur pöllum á hverju skipi. Samkvæmt Sverri Daníel Halldórssyni leiðangursstjóra hvalatalninga um borð í Árna Friðrikssyni fóru talningar vel af stað í gær, þegar þau sigldu út úr vetrarveðrinu sem hefur herjað á landsmenn þessa vikuna. Gott veður var á svæðinu, og sáust langreyðar, hnúfubakar, hrefnur og hnýðingar,“ segir á hafro.is.