Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir að núverandi stjórnkerfi fiskveiða væri gott ef það væri ekki misnotað. Þetta kemur fram í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.
Sjómannasambandið hefur gagnrýnt frjálst framsal veiðiheimilda og Sævar segir að ályktað hafi verið gegn frjálsa framsalinu á öllum þingum sambandsins frá því það var heimilað árið 1991.
,,Við styðjum kvótakerfið eða aflahlutdeildarkerfið sem slíkt og höfum alltaf gert. Útgerðarmenn geta sjálfum sér um kennt hvernig nú er komið fyrir þessu annars ágæta fiskveiðistjórnunarkerfi. Þeim sem braska með kvótann og selja öðrum aðgang að auðlindinni er ekki treystandi fyrir fiskveiðiréttinum að okkar dómi. Ég er sannfærður um það að ef hlustað hefði verið á okkur í upphafi og lokað á kvótabraskið áður en það fór úr böndunum stæðu ekki þessar harðvítugu deilur um kvótakerfið í dag. Kerfið er gott ef það er ekki misnotað,“ segir Sævar Gunnarsson.
Sjá nánar ítarlegt viðtal við Sævar Gunnarsson í Fiskifréttum.