Svandís Svavarsdóttir segir að stokka þurfi upp í flóknu regluverkinu í kringum sjávarútveg. Flækjurnar séu það miklar að jafnvel þau sem starfa í greininni eigi erfitt með að skilja hlutina, hvað þá almenningur sem stendur fyrir utan. Það sé urgur í samfélaginu og hafi verið lengi.

„Ég fæ verkefnið í stjórnarsáttmálanum, þar sem talað er um atriði sem ég á að setja á mína dagskrá sem matvælaráðherra. Meðal annars nokkrar línur um að freista þess að auka sátt um íslenskan sjávarútveg. Sem er ekkert smá verkefni,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, spurð hvort einhver ástæða sé til bjartsýni á árangur úr nefndastarfinu mikla sem hún ýtti í vör í sumar.

„Allt þetta hefur verið reynt áður og ekki skilað miklum breytingum, og það sem mikilvægast er, ekki þessari sátt, ekki þessu jafnvægi. Þannig að mér fannst töluvert á sig leggjandi að fara nýja leið. Gefa okkur tíma til að hugsa með hvaða hætti við getum nálgast þetta öðru vísi en hefur verið gert áður.“

Í staðinn fyrir að nálgast þetta með hefðbundnari hætti, „þar sem annað hvort ráðherrann skerpir sína sýn og fær sína lögfræðinga til að skrifa frumvarp og mætir svo með það í ríkisstjórn og áfram í þingið eftir atvikum, eða þá leið að kalla eftir tilnefningum og búa til starfshóp og svona,“ þá hafi verið ákveðið að „finna og stilla saman öflugum sérfræðingum og fólki með mikla reynslu og mikla innsýn í viðkomandi geira.“

Sem kunnugt er hafa fjórir starfshópar og fjölmenn samráðsnefnd fengið það verkefni að endurskoða meira og minna allt regluverkið í íslenskum sjávarútvegi. Niðurstöður eiga að liggja fyrir strax næsta vor og stefnt er að því að frumvörp verði lögð fram á þingi næsta haust, í þeirri von að þau verði að lögum vorið 2024.

Tilraunarinnar virði

Hún segir starfið hafa farið mjög vel af stað.

„Mér finnst ég mæta jákvæðum tónum, svo langt sem það nær. Fólk er almennt þeirrar skoðunar að þetta sé tilraunarinnar virði.“

Þetta á greinilega að vera mjög opið ferli og ekki reynt að stýra því í fyrirfram mótaðar niðurstöður, en Svandís er engu að síður spurð hvort hún sjálf, sem ráðherra málaflokksins, hafa ekki ákveðnar áherslur og hvað hún myndi vilja sjá koma út úr þessu starfi.

„Allt sem ég segi á þessum tímapunkti vegur náttúrlega mjög þungt og ég vil gefa þessari vinnu þann frið sem hún þarf, án þess að ég sé að gera grein fyrir einhverjum tilteknum áherslumálum og vinnan þurfi síðan að bregðast við því,“ segir hún.

Engu að síður séu ákveðnir þættir sem henni finnst „alveg klárlega að við þurfum að horfa til. Ég vil nefna til dæmis það að tryggja að sjálfbærnisjónarmiðin séu sterkari í lagarammanum og lagaumhverfinu og að það sé betur búið um hafrannsóknir og hinn vísindalega grundvöll ráðgjafar. Þar þurfum við að gera miklu betur.“

Markmið í loftslagsmálum

„Við þurfum líka að beita fiskveiðistjórnunarkerfinu meira í áttina að því að það sé í samræmi við loftslagssjónarmið. Fiskveiðistjórnunarkerfið er stýritæki, stjórntæki stjórnvalda, og þarna eru gríðarlega mikil verðmæti sem teknar eru ákvarðanir um að ráðstafa með ákveðnum hætti. Við erum búin að setja okkur ákveðin markmið í loftslagsmálum og til þess að ná þeim þá þurfum við að stíga fast til jarðar, ekki bara í orkuskiptum heldur líka í því hvernig við umgöngumst auðlindir og hvernig losun gróðurhúsalofttegunda er háttað.“

Hún nefnir einnig „þessar sértæku ráðstafanir, byggða og atvinnuráðstafanir sem hafa verið settar á laggirnar á ýmsum tímum og með ýmsum markmiðum. Þar erum við að tala um byggðakvóta, línuívilnun, rækju- og skelbætur, strandveiðipottinn, 5,3 prósentin sem eru í raun og veru fyrir utan stóra kerfið og við þurfum eiginlega að skoða með hvaða hætti þessar ráðstafanir hafa nýst í því skyni sem upphaflega var lagt upp með. Við ætluðum að tryggja ákveðna byggðafestu, við ætluðum að tryggja atvinnu út um allt land og það voru ýmsar forsendur sem voru lagðar til grundvallar til að byrja með, og núna þurfum við að nema staðar og meta hvort að þessar forsendur séu uppfylltar. Og þá er mjög mikilvægt að við tökum við líka mælikvarða umhverfissjónarmiða og loftslagsmála og allra þessara þátta og metum um leið. Það er verkefnið.“

Stóra spurningin

Loks nefnir hún „stóru spurninguna, hvað á þjóðin að fá fyrir nýtingu auðlindarinnar, það verður að vera partur af samtalinu. Greinin er stöndug og gæti örugglega lagt meira af mörkum ekki síst þegar við glímum við áskoranir í ríkisfjármálunum.“

„En burtséð frá þessu, þetta eru allt efnislegir þættir, þá þarf að einfalda þetta lagaumhverfi,“ segir Svandís. „Þetta er alveg stagbætt og það er eiginlega alveg vonlaust að skilja það, bæði fyrir þau sem eru að vinna í samræmi við lagaumhverfið, hvort sem það eru smábátar í landi eða togarar eða hvað, að ég tali nú ekki um almenning. Tiltektin í þessu lagaumhverfi er nauðsynleg.“

Hún segist engan veginn líta á þetta sem sérstakt tækifæri fyrir sig „sem stjórnmálamann til að koma mínum ítrustu pólitísku markmiðum í gegn. Þetta er verkefni mitt ráðherra sjávarútvegsmála í umboði Alþingis, að freista þess að ná breiðari samstöðu um málið. Það er urgur í samfélaginu og búið að vera um langt árabil. Við eigum að reyna að draga úr ósættinu.“