Samkeppniseftirlitið hefur opnaði nýverið upplýsingasíðu þar sem gerð er grein fyrir athugun hennar á stjórnunar- og eignatengslum í íslenskum sjávarútvegi, undirbúningi og framvindu hennar hingað til. Einnig er þar að finna áætlun um tilhögun og áfangaskiptingu athugunarinnar héðan í frá.
Á þessu stigi er sjávarútvegsfyrirtækjum og öðrum sem þess óska gefinn kostur á að tjá sig um áætlunina. Einnig er öllum gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum, svo sem um stjórnunar- og eignatengsl sjávarútvegsfyrirtækja.
Samkeppniseftirlitið greindi frá því í október síðastliðnum að ákvörðun hefði verið tekin um að hefja athugun á stjórnunar- og eignatengslum í íslenskum sjávarútvegi.
„Athugunin tekur til sjávarútvegsfyrirtækja sem eiga eða leigja fiskiskip með aflahlutdeildir. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu fengu 307 fyrirtæki úthlutað aflmarki í upphafi fiskveiðiársins 2022/2023, en 20 stærstu útgerðirnar voru með nær 73% af þeirri úthlutun,“ segir á upplýsingasíðunni.
Niðurstöður athugunarinnar verða settar fram í sérstakri skýrslu, en gert er ráð fyrir að hún liggi fyrir í lok árs 2023.
Stofnunin segir athugunin taki að lágmarki til eftirfarandi fjögurra þátta:
„I. Hún tekur til sjávarútvegsfyrirtækja sem eiga eða leigja fiskiskip með aflahlutdeild.
II. Henni er ætla að varpa ljósi á eignarhald eins sjávarútvegsfyrirtækis (eða aðila, eins eða fleiri, sem hefur eða hafa yfirráð yfir sjávarútvegsfyrirtæki) í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum.
III. Henni er ætlað að varpa ljósi á eignarhald eins sjávarútvegsfyrirtækis (aðila, eins eða fleiri, sem hefur eða hafa yfirráð yfir sjávarútvegsfyrirtæki) í öðrum fyrirtækjum hér á landi, án tillits til þess á hvaða sviði þau starfa.
IV. Henni er ætlað að varpa ljósi á áhrifavald eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í fyrirtækjum, sbr. afmörkun í liðum 2 og 3.“
Ennfremur segir: „Ólíkt því sem stundum er haldið fram gilda engar undanþágur fyrir sjávarútveginn frá íslenskum samkeppnislögum,“ segir á upplýsingasíðunni. „Bannákvæði og samrunaákvæði samkeppnislaga gilda því um fyrirtæki í sjávarútvegi með sama hætti og hjá öðrum fyrirtækjum. Hins vegar er sjávarútvegi að hluta til búin umgjörð af hálfu löggjafans sem hefur áhrif á beitingu, eða þörf á beitingu samkeppnislaga.“
Um heimild Samkeppnisstofnunar til gagnaöflunar segir:
„Upplýsinga- og gagnaöflun Samkeppniseftirlitsins byggir á 19. gr. samkeppnislaga, en samkvæmt ákvæðinu getur Samkeppniseftirlitið krafið einstök fyrirtæki, fyrirtækjahópa og samtök fyrirtækja um allar upplýsingar og gögn sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Sömuleiðis getur Samkeppniseftirlitið „krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra“.
Misbrestur á að veita eftirlitinu upplýsingar getur varðað viðkomandi stjórnvaldssektum, sbr. 37. gr. samkeppnislaga, eða dagsektum, sbr. 38. gr. sömu laga.
Eyðing og fölsun gagna eða röng upplýsingagjöf getur varðað hlutaðeigandi sektum eða fangelsi, sbr. 41. gr. b samkeppnislaga.“