Páll Sigurðsson hefur komið sér vel fyrir í nyrstu byggðum Noregs og stundar þar útgerð og sjómennsku. Hann lætur vel af lífinu og sér ekki eftir neinu.

Páll var kominn í ákveðna pattstöðu. Síðustu árin hafði hann verið að veiða fyrir aðra, stundað strandveiðar þessar örfáu vikur sem gefast til þess á hverju ári. Börnin flogin úr hreiðrinu. Því þá ekki að rífa sig upp frá Súgandafirði og flytja til Gamvik í Norður-Noregi, nyrsta byggða stað á meginlandi Evrópu? Sumir hefðu kannski hikað en Páll Sigurðsson lét slag standa á vormánuðum 2017. Hann hefur komið sér vel fyrir í nyrstu byggðum Noregs og Hafrún Huld Einarsdóttir, eiginkona hans, er flutt til hans. Hann vinnur annan hvern mánuð á Austhavet, bát Gamvik Kystfisk útgerðarinnar, og hina mánuðina gerir hann út sinn eigin bát.

Látnir skrifa undir

Páll er fæddur í Reykjavík 1965 en sleit barnsskónum í Þykkvabæ þar sem foreldrar hans stunduðu þá kartöflurækt. Þar býr móðir hans enn á bænum Hárima en ræktar ekki lengur kartöflur. Hann var á vertíðarbátum frá Þorlákshöfn og fór fyrst á sjóinn 14 ára gamall með föður sínum. Hann var líka á netum í mörg ár á Snætindi ÁR.

Mikil fjárfesting – lítil afkoma

„Ég fór svo í framhaldsnám í MH en tók bara tvö ár og kláraði ekki. Það var svo hátt kaup á sjónum og ég sá enga aðra framtíð en að vera á sjó. Ég var á sjó 1983 þegar kvótakerfinu var komið á. Áður höfðum við verið látnir skrifa undir plaggið fræga þegar allir sjómenn á Íslandi voru sviknir. Það var farið í hvern einasta vertíðarbát og sjómenn látnir skrifa undir þetta plagg sem snerist um það að við værum samþykkir kvótakerfinu. Það skrifuðu nánast allir undir enda átti þetta fyrirkomulag bara að vera til bráðabirgða í eitt eða tvö ár. Þessi samningur var því svikinn af stjórnvöldum því kvótakerfið stendur enn. Ég lít þannig á að kvótakerfið.“

Engan áhuga á stórútgerð

Kona Páls er frá Suðureyri við Súgandafjörð þar sem lífið gekk nær einvörðungu út á fisk þegar þau voru að draga sig saman. Páll kynntist henni á Ísafirði þar sem hann starfaði í nokkur ár sem lögreglumaður. Hann ílentist í lögreglunni fram til 1991 en sjórinn kallaði á hann.

„En eins og flestir vita er kvótakerfið á Íslandi ekki vinur litla mannsins. Ég hef engan áhuga á stórútgerð út af fyrir sig og lít bara á mig sem trillukarl. En okkur eru flestar bjargir bannaðar. Það býðst að vera í strandveiðikerfinu en það býður bara upp á vinnu hluta úr ári en kallar á mikla fjárfestingu fyrir litla afkomu.“

Stóra ákvörðunin

Árið 2010 réð Páll sig á báta sem gerðir voru út á Suðureyri. Fyrst var hann með Kristján ÍS, sem var lítill Gáskabátur, og svo seinna á Blika ÍS. Oft var siglt alla leið út á Hala eftir fiski. Páll segir að búið sé að hleypa togurum og snurvoðarbátum svo nálægt landi að trillukarlarnir þurfi að sækja sinn afla langt út á haf. „Þeir sem eru með stærri útgerðirnar fá það sem þeir vilja og litli karlinn hirðir afganginn. Það getur verið varasamt að fara á þessum litlum bátum langt út á haf eftir fiski en það er ekkert annað í boði.“

Stóra ákvörðunin var tekin í upphafi árs 2017. Vinur hans hafði ráðið sig í vinnu á þessum norðlægum slóðum hjá Íslendingunum Haraldi Haraldssyni og Albert Eggertssyni sem eru þarna með útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Gamvik Kystfisk. Þeir gera út fimm báta og eru með góðan aðbúnað.

Gyðjan Sif

„Ég vissi að ég var að fara í góðan aðbúnað hjá vönduðum mönnum og það auðveldaði ákvörðunina. Ég hafði hugsað um þetta í mörg ár. En það var komin á þessum tíma ákveðin þreyta í mig og mér fannst tækifærin ekki mörg í tengslum við sjómennsku á Íslandi. Ég fór því út og var í nokkurs konar fjarvinnu allt fram til 2022. Flaug fram og til baka og eiginkonan hélt öllu gangandi heima. Núna eru börnin uppkomin og konan komin til mín,“ segir Páll.

Sif sjósett í Hammerfest þar sem hún var skoðuð með tilliti til haffæris.
Sif sjósett í Hammerfest þar sem hún var skoðuð með tilliti til haffæris.

Hann hefur verið á bát sem Gamvik Kystfisk gerir út og heitir Austhavet. Áður hét hann Saga K og var smíðaður á Íslandi fyrir bræðurna Helga og Hrafn Sigvaldasyni árið 2012 sem ásamt Birni Sigurðssyni ráku útgerðarfyrirtækið Esköy í Noregi. Páll hefur verið á Austhavet alveg frá því að Gamvik Kystfisk keypti hann árið 2017. Þótt Páll hefði komið sér ágætlega fyrir í Gamvik langaði hann innst inni að vera líka sjálfs síns herra. Í fyrra keypti hann því notaðan Cleopatra 38 í Njarðvík, sem áður hét Lómur KE, og lét flytja hann til Noregs. Nú ber hann heiti gyðjunnar Sifjar í Noregi. Planið hjá Páli er að vinna hjá Gamvik Kystfisk annan hvern mánuð og vera á eigin bát hina mánuði ársins. Hann rær á bátum Gamvik Kystfisk í febrúar, apríl, júní, ágúst, október og desember. Aðra mánuði gerir hann Sif út. Taka þurfti framan af stefni bátsins til þess að koma honum inn í opna kerfið í Noregi fyrir báta sem eru 10-11 metrar að lengd. En sem nýliða á norskum miðum við nyrsta sjóndeildarhring var honum tekið opnum örmum. Hann fékk úthlutað kvóta án þess að þurfa að greiða krónu fyrir hann og nú hefur hann nóg fyrir stafni.

Sif komin í heimahöfn í Gamvik.
Sif komin í heimahöfn í Gamvik.

Síkvikt fiskveiðistjórnunarkerfi

„Ef þú býrð í Noregi máttu kaupa þér bát og byrja að veiða fisk, svo einfalt er það. Það er heildarkvóti fyrir hvern lengdarflokk báta en þeir eru allnokkrir. Kvótinn deilist jafnt á alla bátana. Í fyrra fékk ég um það bil 14 tonna þorskkvóta á minn bát og svo hef ég líka aðgang að byggðakvóta því ég bý svo norðarlega í landinu. Hann var um átta tonn en það merkilega við kerfið er að það er stöðugt til endurskoðunar. Jafnvel þrisvar á ári er aukið við kvóta eða hann skorinn niður eftir aðstæðum hverju sinni. Mér finnst þetta meira í ætt við fiskveiðistjórnarkerfi hérna í Noregi meðan þetta er fyrst og fremst hagsmunakerfi heima. Hvernig er hægt að ákveða kvóta fyrir allt árið úr lífríkinu? Svo verða kannski stórfelldar breytingar í lífríkinu en þá er ekki hægt að bregðast við því kvótinn hefur verið ákveðinn með lögum. Hérna skera þeir niður kvóta eða auka hann nokkrum sinnum á ári og gefa jafnvel út frjálsar veiðar ef viðkomandi stofn er talinn mjög sterkur eða lítið verið veitt úr honum. Þá hefjast bara ólympískar veiðar. Auðvitað er ekkert kerfi fullkomið en ég fæ það á tilfinninguna að Norðmenn séu að nota þetta sem fiskveiðistjórnunarkerfi.“

Róður undirbúinn í myrkri sem er áþreifanlegt á veturna í Gamvik.
Róður undirbúinn í myrkri sem er áþreifanlegt á veturna í Gamvik.

Kóngakrabbinn góð búbót

Auk þessara 22 tonna af þorski má Páll veiða eins mikið af ýsu og hann mögulega getur, kvóti hans í ufsa var 150 tonn og allir bátar í Noregi mega veiða 20 tonn af grálúðu á ári á tveimur tímabilum, í júní og ágúst. Af öðrum tegundum er mönnum frjálst að veiða eins og þeir geta, þ.e.a.s. af keilu, löngu og karfa. Þorskveiði inni á fjörðum Noregs innan tólf mílna teljast ekki vera sjálfbærar veiðar og af þeim sökum missti þessi fiskur MSC umhverfisvottunina sem getur skipt miklu máli gagnvart kaupendum. Páll segir að nú sé verið að beina mönnum frá fjörðunum og utar til veiða því í fjörðunum eru uppeldisstöðvarnar sem menn vilja vernda. Annað sem skiptir sjómanninn máli á þessum slóðum eru krabbaveiðar. Þeir sem búa nyrst í Noregi eiga rétt á því að veiða krabba út frá byggðasjónarmiðum, en aðrir ekki. Kóngakrabbar halda sig yfirleitt á miklu dýpi en koma upp í fjörur á mökunartímanum. Þyngstu krabbarnir eru rúmlega 20 kg og þykja þeir mikill herramannsmatur. Þó eru þau ákvæði á veiðunum að til þess að halda réttinum til krabbaveiða veður virði afla í öðrum tegundum að ná að minnsta kosti 200.000 NOK, rúmlega 2,6 milljónum ÍSK á ári. Einn krabbakvóti er metinn á um eina milljón norskar krónur, rúmlega 13 milljónir ÍSK. Páll segir að það taki ekki nema eina til tvær vikur að veiða kvótann. Kvótaárið í öllum tegundum í Noregi fylgir almanaksárinu. Páll hefur ekki enn spreytt sig á kóngakrabbanum en hann hefur fullan hug á því á þessu ári. Til þess þarf að hann að koma sér upp búnaði, gildrum og krana um borð. Hann þarf að sýna fram á að báturinn sé rétt útbúinn til veiðanna áður en leyfið fæst. Besti tíminn til þessara veiða er í nóvember og fram í febrúar. Hann verður að vera heill og lifandi en skaddaður krabbi fer í annan og mun verðminni flokk. Þetta er lúxusmatur fyrir þá sem þurfa ekki að velta hverri krónu fyrir sér. Kílóverðið upp úr bát er um 5.000 ÍSK en sem fyrr segir getur hver krabbi vegið allt að tíu kílóum. Á veitingastöðum er kílóverðið allt að 30.000 ÍSK.

„Ef þú býrð í Noregi máttu kaupa þér bát og byrja að veiða fisk, svo einfalt er það.“
„Ef þú býrð í Noregi máttu kaupa þér bát og byrja að veiða fisk, svo einfalt er það.“

Ekki ólíkt Súganda

Páll segir veturna þarna norður frá ekkert ósvipaða því sem hann vandist á Vestfjörðunum. Menn fari til vinnu í myrkri og komi heim til sín í myrkri. Málið snúist bara um að hafa góða lýsingu og góðan fatnað.

„Það verður oft mikið frost inni í Finnmörku, þ.e.a.s. inni í landinu og langt frá sjó. Þar hafa verið í vetur allt niður í 40 gráða frost. En ég er kominn norður fyrir þetta mikla frost. Gamvik er við sjóinn og Golfstraumurinn leikur um hann og þar er oft frostlaust eða í mesta lagi mínus fjórar eða fimm gráður. Þetta er bara eins og á Súganda. En ég þrifist ekki þarna inni í Finnmörku út af kuldanum.“