Afkoma sjávarútvegs árið 2022 var með miklum ágætum og nam hagnaður tæpum 88 milljörðum króna eða 27,3% af tekjum. Afkoma greinarinnar hefur reyndar verið góð undanfarin ár og á það ekki síður við um nýliðið ár með ágætri loðnuvertíð og háu fiskverði. Það hefur því verið borð fyrir báru til fjárfestinga. Stefnt er að afhendingu á eigi færri en fimm nýjum skipum á þessu ári og stórar fjárfestingar af þessu tagi hafa mikil hliðaráhrif innanlands. Mörg íslensk tæknifyrirtæki blómstra í þessum jarðvegi en það á ekki síður við um tæknifyrirtæki sem þjónusta fiskvinnsluna.

Margrét GK

Á þessu ári afhendir Skipasmíðastöð Njarðvíkur útgerðar- og vinnslufyrirtækinu Stakkavík í Grindavík 13 metra langan stálbát, Margréti GK, sem er fyrsti stálbáturinn sem er smíðaður inn í krókaaflamarkskerfið fyrir íslenska útgerð í yfir 20 ár. Báturinn var smíðaður í Tyrklandi og kom til landsins í október síðastliðnum. Margrét GK leysir af hólmi plastbátinn Óla á Stað GK sem smíðaður var hjá Seiglu 2014. Hann er hannaður af Ráðgarði skipahönnun ehf.

Frá komu Margrétar GK til Njarðvíkur í október. Mynd/Þráinn.
Frá komu Margrétar GK til Njarðvíkur í október. Mynd/Þráinn.

Hulda Björnsdóttir GK

Annað grindvískt skip sem afhent verður á árinu, líklega í maí, er ferskfisktogarinn Hulda Björnsdóttir GK, sem verið er að klára að smíða hjá Armon skipasmíðastöðinni á Spáni. Skipið er fyrsta nýsmíði Þorbjarnar hf. og verður með einföldum hætti hægt að breyta í frystiskip. Skipið byggir á svipuðum útgangspunktum og Breki VE og Páll Pálsson ÍS, þ.e. með skrúfu sem er fimm metrar í þvermál, minni og hæggengari vél sem leiðir til allt að 40% minni olíunotkunar á hvert veitt kíló. Sami skrokkur og skrokklag verður á nýsmíði Þorbjarnar og frystitogara Nesfisks í Garði, Baldvins Njálssonar GK, sem einnig var smíðaður hjá Armon eftir hönnun Skipasýnar og kom til landsins á síðasta ári.

Sigurbjörg ÁR

Til stóð að Sigurbjörg ÁR, nýr ísfisktogari Ísfélagsins hf., kæmi til landsins nú um áramótin. Einhverjar tafir verða á afhendingu hans. Skipið er smíðað hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi eftir hönnun Nautic. Sigurbjörg ÁR er 48 metra löng og 14 metra breið. Skrúfan er 4,2 metrar í þvermál. Skipið er með fjórum togvindum og býður upp á möguleika fyrir veiðar með þremur trollum. Sama skrokklag er á skipinu og HB Granda skipunum sem Nautic hannaði upp úr 2015 með svokölluðu Enduro Bow stefni. Sigurbjörg er þó styttri en breiðari en Akurey og Viðey.

Sigurbjörg ÁR sjósett í Tyrklandi í ágúst.
Sigurbjörg ÁR sjósett í Tyrklandi í ágúst.

Hákon ÞH

Það styttist í að Hákon ÞH 250, nýtt uppsjávarskip Gjögurs hf., komi til landsins. Skrokkur skipsins var smíðaður í Karstensens skipasmíðastöðinni í Gdansk en verið er að fullklára skipið í skipasmíðastöð fyrirtækisins í Skagen í Danmörku þessa dagana. Ráðgert er að Hákon ÞH verði afhentur næsta vor. Upphaflega stóð þó til að afhending yrði ekki fyrr en á næsta ári en Gjögur skipti á samningum við Skinney-Þinganes, sem lætur smíða sams konar skip, og færðist afhending Hákons við það fram um eitt ár en tefst um eitt ár hjá Skinney-Þinganesi. Hákon ÞH leysir af hólmi nafna sinn EA sem nú er til sölu. Nýja skipið er 75,4 metrar á lengd og 16,5 metrar á breidd. Lestarnar eru búnar kælitönkum sem taka um 2.400 rúmmetra af fiski og sjó. Aðalvélin er frá Wärtstilä og aflið er 5.200 kW. Skrúfan er fjórir metrar í þvermál.

Það styttist í að Hákon ÞH 250, nýtt uppsjávarskip Gjögurs hf., komi til landsins.
Það styttist í að Hákon ÞH 250, nýtt uppsjávarskip Gjögurs hf., komi til landsins.

Þórunn Þórðardóttir HF

Loks má rifja upp að biðin eftir nýju hafrannsóknaskipi tekur senn enda því um miðjan síðasta mánuð var Þórunn Þórðardóttir HF 300 sjósett í Vigo á Spáni. Skipið er nefnt eftir fyrstu konunni með sérfræðimenntun í hafrannsóknum og stefnt er að því að það verði afhent í nóvember á þessu ári. Skipasýn ehf. forhannaði skipið og rammaði inn í þá fjárveitingu sem ætluð er til smíðinnar. Það er 70 metrar á lengd og við hönnun þess var horft til ýmissa leiða til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þórunn Þórðardóttir leysir af hólmi Bjarna Sæmundsson sem var smíðaður árið 1970. Fjárveiting til smíði skipsins nemur 36 milljónum evra, 5,4 milljörðum ÍSK að núvirði.

Tölvugerð mynd af Þórunni Þórðardóttur HF.
Tölvugerð mynd af Þórunni Þórðardóttur HF.

Afkoma sjávarútvegs árið 2022 var með miklum ágætum og nam hagnaður tæpum 88 milljörðum króna eða 27,3% af tekjum. Afkoma greinarinnar hefur reyndar verið góð undanfarin ár og á það ekki síður við um nýliðið ár með ágætri loðnuvertíð og háu fiskverði. Það hefur því verið borð fyrir báru til fjárfestinga. Stefnt er að afhendingu á eigi færri en fimm nýjum skipum á þessu ári og stórar fjárfestingar af þessu tagi hafa mikil hliðaráhrif innanlands. Mörg íslensk tæknifyrirtæki blómstra í þessum jarðvegi en það á ekki síður við um tæknifyrirtæki sem þjónusta fiskvinnsluna.

Margrét GK

Á þessu ári afhendir Skipasmíðastöð Njarðvíkur útgerðar- og vinnslufyrirtækinu Stakkavík í Grindavík 13 metra langan stálbát, Margréti GK, sem er fyrsti stálbáturinn sem er smíðaður inn í krókaaflamarkskerfið fyrir íslenska útgerð í yfir 20 ár. Báturinn var smíðaður í Tyrklandi og kom til landsins í október síðastliðnum. Margrét GK leysir af hólmi plastbátinn Óla á Stað GK sem smíðaður var hjá Seiglu 2014. Hann er hannaður af Ráðgarði skipahönnun ehf.

Frá komu Margrétar GK til Njarðvíkur í október. Mynd/Þráinn.
Frá komu Margrétar GK til Njarðvíkur í október. Mynd/Þráinn.

Hulda Björnsdóttir GK

Annað grindvískt skip sem afhent verður á árinu, líklega í maí, er ferskfisktogarinn Hulda Björnsdóttir GK, sem verið er að klára að smíða hjá Armon skipasmíðastöðinni á Spáni. Skipið er fyrsta nýsmíði Þorbjarnar hf. og verður með einföldum hætti hægt að breyta í frystiskip. Skipið byggir á svipuðum útgangspunktum og Breki VE og Páll Pálsson ÍS, þ.e. með skrúfu sem er fimm metrar í þvermál, minni og hæggengari vél sem leiðir til allt að 40% minni olíunotkunar á hvert veitt kíló. Sami skrokkur og skrokklag verður á nýsmíði Þorbjarnar og frystitogara Nesfisks í Garði, Baldvins Njálssonar GK, sem einnig var smíðaður hjá Armon eftir hönnun Skipasýnar og kom til landsins á síðasta ári.

Sigurbjörg ÁR

Til stóð að Sigurbjörg ÁR, nýr ísfisktogari Ísfélagsins hf., kæmi til landsins nú um áramótin. Einhverjar tafir verða á afhendingu hans. Skipið er smíðað hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi eftir hönnun Nautic. Sigurbjörg ÁR er 48 metra löng og 14 metra breið. Skrúfan er 4,2 metrar í þvermál. Skipið er með fjórum togvindum og býður upp á möguleika fyrir veiðar með þremur trollum. Sama skrokklag er á skipinu og HB Granda skipunum sem Nautic hannaði upp úr 2015 með svokölluðu Enduro Bow stefni. Sigurbjörg er þó styttri en breiðari en Akurey og Viðey.

Sigurbjörg ÁR sjósett í Tyrklandi í ágúst.
Sigurbjörg ÁR sjósett í Tyrklandi í ágúst.

Hákon ÞH

Það styttist í að Hákon ÞH 250, nýtt uppsjávarskip Gjögurs hf., komi til landsins. Skrokkur skipsins var smíðaður í Karstensens skipasmíðastöðinni í Gdansk en verið er að fullklára skipið í skipasmíðastöð fyrirtækisins í Skagen í Danmörku þessa dagana. Ráðgert er að Hákon ÞH verði afhentur næsta vor. Upphaflega stóð þó til að afhending yrði ekki fyrr en á næsta ári en Gjögur skipti á samningum við Skinney-Þinganes, sem lætur smíða sams konar skip, og færðist afhending Hákons við það fram um eitt ár en tefst um eitt ár hjá Skinney-Þinganesi. Hákon ÞH leysir af hólmi nafna sinn EA sem nú er til sölu. Nýja skipið er 75,4 metrar á lengd og 16,5 metrar á breidd. Lestarnar eru búnar kælitönkum sem taka um 2.400 rúmmetra af fiski og sjó. Aðalvélin er frá Wärtstilä og aflið er 5.200 kW. Skrúfan er fjórir metrar í þvermál.

Það styttist í að Hákon ÞH 250, nýtt uppsjávarskip Gjögurs hf., komi til landsins.
Það styttist í að Hákon ÞH 250, nýtt uppsjávarskip Gjögurs hf., komi til landsins.

Þórunn Þórðardóttir HF

Loks má rifja upp að biðin eftir nýju hafrannsóknaskipi tekur senn enda því um miðjan síðasta mánuð var Þórunn Þórðardóttir HF 300 sjósett í Vigo á Spáni. Skipið er nefnt eftir fyrstu konunni með sérfræðimenntun í hafrannsóknum og stefnt er að því að það verði afhent í nóvember á þessu ári. Skipasýn ehf. forhannaði skipið og rammaði inn í þá fjárveitingu sem ætluð er til smíðinnar. Það er 70 metrar á lengd og við hönnun þess var horft til ýmissa leiða til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þórunn Þórðardóttir leysir af hólmi Bjarna Sæmundsson sem var smíðaður árið 1970. Fjárveiting til smíði skipsins nemur 36 milljónum evra, 5,4 milljörðum ÍSK að núvirði.

Tölvugerð mynd af Þórunni Þórðardóttur HF.
Tölvugerð mynd af Þórunni Þórðardóttur HF.