Reynslumesti maðurinn í áhöfn frystitogarans Blængs NK, Sigurðir Breiðfjörð, kvaddi skipsfélagana þegar komið var í heimahöfn í Neskaupstað á mánudag að aflokinni vel heppnaðri veiðiferð.
Frá þessu segir á vefsíðu Síldarvinnslunnar þar sem rætt er við Sigurð sem kveðst vera að hætta vegna aldurs 65 ára gamall.
„Ég vil hætta áður en ég verð bara fyrir strákunum þarna um borð. Ég hef verið hátt í 50 ár á sjónum og það finnst sjálfsagt mörgum að nóg sé komið. Ég hóf sjómannsferilinn kornungur á netabáti en síðan náði ég því að vera háseti á síðutogaranum Maí. Það eru ekki margir núverandi sjómenn sem voru á gömlu síðutogurunum,“ segir Sigurður á svn.is.
Sigurður var síðan á ýmsum bátum en að því hafi komið að togararnir tóku yfir.
Öll áhöfnin er jákvæð og samviskusöm
„Ég var til dæmis á Apríl, Ými og Rán. Þá lá leiðin til Noregs þar sem ég var á togara frá Álasundi og síðan var ég reyndar um tíma á dönskum bátum. Árið 2001 lá leiðin aftur til Íslands og ég var á nokkrum togurum eins og Þór, Venusi, Sturlaugi, Örfirisey og Höfrungi. Á Blæng fer ég árið 2021 og hef verið þar háseti síðan,“ segir Sigðurður sem kveður sér hafa líkað einstaklega vel að vera á Blængi.
„Á Blængi eru hörkuskipstjórar og þeir hafa með sér gæðamenn. Öll áhöfnin er jákvæð og samviskusöm. Blængur er rúmlega 50 ára gamalt skip en það hefur fiskast ótrúlega vel á það þessi ár sem ég hef verið þar um borð. Það eru sjálfsagt ekki allir sem gera sér grein fyrir því að pláss á Blængi er með bestu togaraplássum á landinu og það hefur verið frábært að vera á þessu skipi. Nú fer ég að slappa meira af en hingað til en ég kveð skipsfélagana á Blængi með söknuði en ég veit að þeim á eftir að ganga vel áfram sem hingað til,” segir Sigurður Breiðfjörð á vef Síldarvinnslunnar.
Af þessum síðasta túr Sigurðar er það annars að frétta að aflinn var 676 tonn upp úr sjó að verðmæti 442 milljónir króna. Langmest var af ýsu og ufsa en síðan var töluvert af þorski og öðrum tegundum.