Elias Gunnlaugsson í Vestmannaeyjum er sá eini eftirlifandi þeirra sem fyrstir björguðust um borð í gúmmíbát hér við land fyrir réttum 60 árum. Þótt ótrúlegt kunni að virðast mótmælti landsþing Slysavarnarfélags Íslands því í upphafi að leyft skyldi að setja þessi ,,togleðurhylki" í fiskiskip.
Þessir atburðir eru rifjaðir upp í jólablaði Fiskifrétta. Þar kemur fram að árið 1951 fengu tveir útgerðarmenn í Eyjum, þeir Sighvatur Bjarnason og Kjartan Ólafsson, leyfi Skipaskoðunar ríkisins til þess að setja gúmmíbáta um borð í skip sín Erling VE og Veigu VE. Sjóslys voru nær árviss viðburður á þessum árum og stundum fórust heilu áhafnirnar, jafnvel fleiri en ein. Björgunartæki væru fá og ófullkomin og hefðbundnum björgunarbátum var nær útilokað að koma fyrir vegna þess hve lítil flest skipin voru. Gúmmíbátana höfðu þeir Sighvatur og Kjartan fengið hjá Sölunefnd setuliðseigna en þeir hðfðu áður verið um borð í flugvélum.
En nú komu margir ,,sérfræðingar" fram á sjónarsviðið og fundu gúmmíbátunum allt til foráttu og töldu þá veita sjómönnum falskt öryggi. Jafnvel landsþing Slysavarnarfélagsins skoraði á Skipaskoðun ríkisins að draga til baka leyfið til Vestmannaeyinga til þess að setja ,,flothylki úr togleðri" í fiskiskip.
Ekki voru liðnir nema 10 daga frá samþykkt Slysavarnarfélagsins þegar fyrst reyndi á ágæti þessa nýja björgunartækis. Veiga VE, sem Elías Gunnlaugsson var skipstjóri á, fékk skyndilega á sig brotsjó og sökk. Komust sex skipverjar í gúmbátinn en tveir drukknuðu. ,,Ég veit það eitt að ég væri ekki hér til frásagnar í dag ef þetta tæki hefði ekki verið um borð í Veigu," segir Elías í viðtali í jólablaði Fiskifrétta.
Árið eftir fórst annar Eyjabátur, Guðrún VE, og með honum fimm menn en fjórir komust í gúmmíbát. Árið þar á eftir (1954) fórst svo Glaður VE en öll áhöfnin, átta menn, bjargaðist í gúmbát. Alls höfðu því 18 sjómenn bjargast á þremur árum fyrir tilstilli þessa björgunartækis.
Þá þögnuðu úrtöluraddirnar endanlega, en það var þó ekki fyrr en árið 1957, fimm árum eftir Veiguslysið, að Alþingi samþykkti lög um að öll íslensk skip skyldu hafa gúmmíbjörgunarbáta fyrir alla áhöfnina.
Sjá nánar viðtal við Elías Gunnlaugsson í jólablaði Fiskifrétta 2012.