Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra kveðst bæði sorgmædd og reið vegna áforma HB Granda um að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi. Á fyrirtækinu hvíli rík samfélagsleg ábyrgð og því beri að tryggja trausta byggð og atvinnu í landinu samkvæmt lögum. Þetta sagði hún í viðtali í hádegisfréttum RÚV.
HB Grandi áformar að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi og sameina hana við vinnslu fyrirtækisins í Reykjavík. Ljóst er að ákvörðunin mun hafa áhrif á fjölmargar fjölskyldur á Skaganum. Að óbreyttu missa 93 vinnuna, þar sem konur eru í miklum meirihluta, en tilkynnt verður á morgun um hversu mörgum verður sagt upp og hvort einhver starfanna flytjist til Reykjavíkur.
Þorgerður minnir á að fiskvinnslufólk og fólk í afleiddum störfum í landi, sem nú sé mögulega að fara að missa vinnuna, hafi komið langverst út úr nýafstöðnu sjómannaverkfalli, því lengsta í sögunni.
„Við erum fyrirmyndarþjóð á sviði fiskveiða, en hluti af því að vera til fyrirmyndar er að horfa til þess samfélags sem við búum í og það er viðkvæmt og það ber sérstaklega að horfa til þeirra starfa sem eru í tengslum við sjávarútveg hvort sem það eru í veiðunum sjálfum en ekki síður í vinnslunni í landi,“ segir Þorgerður Katrín. „Ég er bæði sorgmædd og reið og sérstaklega eftir mjög erfitt tíu vikna sjómannaverkfall þar sem að ég hefði nú haldið að menn ættu að átta sig á því að þeir sem að fara með nýtingaréttinn í þágu þjóðarinnar verði að fara varlega.“
Sjá nánar á vef RÚV.