Vegna covid-faraldursins eru fimm ár liðin frá því síðast var efnt til Íslensku sjávarútvegssýningarinnar. Sýnendur eru orðnir óþreyjufullir og nú styttist í viðburðinn.

Óvenju langur tími er liðinn frá því Íslenska sjávarútvegssýningin var síðast haldin. Venjulega er hún haldin á þriggja ára fresti, jafnan að haustlagi, en vegna covid eru nú liðin fimm ár frá síðustu sýningu.

Í þetta skiptið verður sýningartíminn að sumri til, dagana 8. til 10. júní næstkomandi.
„Vonandi sést þá eitthvað til sólar, en hún hefur ekki alltaf látið sjá sig mikið á fyrri sjávarútvegssýningum,“ segir Marianne Rasmussen-Coulling en hún er viðburðastjóri hjá Mercator Media, enska fyrirtækisins sem stendur að sýningunni.

Hún segir eftirvæntingu liggja í loftinu, þú þegar loksins verður hægt að efna til sýningarinnar en fyrst var ætlunin að halda sýninguna haustið 2020. Vegna covid þurfti að fresta henni um ár, til haustsins 2021, en það gekk ekki heldur þegar til kom.

„Við hefðum svo sannarlega viljað halda sýninguna á síðasta ári, en því miður gerðu covid-takmarkanir okkur það ókleift. Ég er viss um að þetta hefur verið jafn óþægilegt fyrir fyrirtækin eins og fyrir okkur. En við vorum bara í þeirri stöðu að enginn annar valkostur bauðst.“

Nú ríkir hins vegar eftirvænting og bjartsýni, enda allur undirbúningur kominn á fullt og búið að bóka meira en 90 prósent af sýningarsvæðinu. Bæta þurfti 100 fermetrum við sýningarsvæðið, en tíminn til að skrá sig fyrir sýningarplássi er orðinn naumur.

Boðsgestir

Meðal nýjunga á sýningunni verður nýtt rafrænt miðakerfi sem auðveldar skráningu gest, og svo geta fyrirtækin sem taka þátt boðið eins mörgum gestum og þau vilja án endurgjalds.

„Þetta þýðir að allir sem tengjast sjávarútvegi, fiskeldi, fiskvinnslu eða framleiðslu sjávarafurða og þekkja til í einhverju af fyrirtækjunum sem taka þátt í sýningunni, geta nú komist á sýninguna kostnaðarlaust,“ segir Marianne. Engar takmarkanir eru því lengur á því hve mörgum gestum fyrirtækin geta boðið.

Að venju verður sjávarútvegssýningin haldin í Smáranum í Kópavogi en þessi sýning verður sú 13. í röðinni. Fyrst var hún haldin hér á landi árið 1984, fyrir nærri 40 árum, en þetta er elsta sjávarútvegssýningin á Íslandi.

Hátíðarvika

Sýningartímann ber upp á vikuna milli hvítasunnu og sjómannadags, og Marianne segir skipulagið taka mið af þessu.

„Sýningarsvæðið verður tilbúið fyrr en venjulega þannig að fólk getur komið og gert sinn sýningarbás að mestu kláran fyrir helgina, til þess að fólk geti svo skroppið í ferðalag eða gert það sem það vill að gera um hvítasunnuhelgina. Svo getur það komið aftur á þriðjudegi og rekið endahnútinn á verkið áður en við opnum á miðvikudegi. Svo er sjómannadagurinn strax helgina á eftir þannig að þetta verður hátíð hafsins í heila viku.“

Sérstök ráðstefna um fullvinnslu sjávarafurða, Fish Waste for Profit, verður að þessu sinni haldin á öðrum og þriðja degi sýningarinnar. Fjölmargir fyrirlesarar verða með erindi allan fimmtudaginn og fram að hádegi á föstudegi.

„Þetta er tímasett þannig að vilji fólk skoða sýninguna betur hefur það tíma eftir hádegi á lokadeginum áður en sýningunni lýkur.“

Samhliða sýningunni verður netútgáfa hennar í gangi, IceFish Connect, og jafnframt verður dagskrá Fish waste for profit streymt á netinu.

Breyttar áherslur

Eins og áður verður formleg opnun klukkan 10 á miðvikudeginum, og það verða sjávarútvegsráðherra og bæjarstjóri Kópavogs sem opna sýninguna. Þá um kvöldið verða svo Íslensku sjávarútvegsverðlaunin afhent í 8. sinn í Gerðarsafni.

„Við höfum breytt verðlaunaflokkunum aðeins til að endurspegla betur þær áherslubreytingar sem hafa orðið á sýningunni. Fyrst í stað snerist sýningin einkum um fiskveiðar og útgerð, en það hefur svo mikið verið að gerast í virðisaukandi geirum greinarinnar þannig að verðlaunin taka mið af því.“

Sérstök svæði á sýningunni hafa verið helguð þessum nýjungum og sömu sögu er að segja af fiskeldinu sem einnig fær sérstakt svæði.

„Þannig verður auðveldara fyrir sýningargesti að skoða það sem áhuginn beinist sérstaklega að.“