Eitt fyrsta verk Svandísar Svarsdóttur, nýs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þegar þing kemur saman í janúar verður að leggja aftur fram á þingi frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, forvera hennar í embætti, um bætt eftirlit í sjávarútvegi. Þetta kemur fram í þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar.

Í frumvarpinu eru lögð til ákvæði um heildstætt viðurlagakerfi vegna brota, heimildir Fiskistofu til að sinna rafrænu eftirliti verði styrktar og að hugtakið raunveruleg yfirráð verði afmarkað betur.

Hugmyndin var að veita Fiskistofa skýrari lagaheimildir til þess að beita viðurlögum, stunda rafrænt eftirlit, meðal annars með drónum, og afla upplýsinga um raunveruleg yfirráð í fyrirtækjum.

Með þessu á að bregðast við athugasemdum og gagnrýni á eftirlit Fiskistofu og að miklu leyti byggt á skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2019 og tillögum verkefnastjórnar í framhaldi af þeirri skýrslu.

Varðandi hugtakið „raunveruleg yfirráð“ er lagt til að Fiskistofa eigi að leggja mat á það hvort yfirráð séu raun fyrir hendi „og aðilar þar með tengdir með svipuðu móti og Samkeppniseftirlitið gerir á grundvelli samkeppnislaga.“

Raunveruleg yfirráð

Í athugasemdum með frumvarpinu segir að raunveruleg yfirráð geti talist vera fyrir hendi „jafnvel þótt viðkomandi fari hvorki með meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár né heldur meiri hluta atkvæðisréttar í eiginlegum skilningi.“

Einnig er gert ráð fyrir því að eftirlitsmenn Fiskistofu fái skýra lagaheimild til að nota dróna og annan fjarstýrðan og sjálfvirkan búnað sem getur safnað upplýsingum. Ennfremur yrði Fiskistofu veitt heimild til að vinna með persónuupplýsingar, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og persónuupplýsingar.

Ögmundur Knútsson Fiskistofustjóri fagnaði frumvarpinu þegar Fiskifréttir ræddu við hann í vor.

„Það hafa verið pínulítil vandræði hvað gömlu lögin hafa verið afdráttarlaus: „skal svipta, skal gera,“ og ekki gert ráð fyrir einhverju meðalhófi þar inni. Þannig að það er bara jákvætt að fá víðari túlkunarmöguleika. Þá er hægt að fara að taka tillit til alvarleika brota og vera ekki að týna okkur í einhverjum smámálum.“

Smábátasjómenn hafa hins vegar margir hverjir verið ósáttir við sitthvað í þessu frumvarpi, ekki síst þau ákvæði er eiga að styrkja rafrænt eftirlit með drónum.

Fleira varð útundan

Frumvarp þetta er ekki hið eina sem tengist sjávarútvegi og náði ekki fram að ganga á síðasta þingi. Útundan varð einnig frumvarp frá ráðherra um töluverðar breytingar á fyrirkomulagi atvinnu- og byggðakvóta, og sömuleiðis varð ekkert úr frumvarpi um kvótasetningu grásleppu, sandkola og hryggleysingja.

Þá varð heldur ekkert úr frumvarpi sem Lilja Rafney Magnúsdóttir, þáverandi formanns atvinnuveganefndar, um að tryggja sjómönnum 48 daga, en smábátasjómenn hafa lagt mikla áherslu á það atriði.

Á hinni nýju þingmálaskrá stjórnarinnar er eitt annað frumvarp er tengist sjávarútvegi, en það lýtur að því að sett verði tímabundin ákvæði í lög til að „ýta undir nýtingu heimilda Íslands til veiða á túnfiski“.