„Meðan Ísland er enn að jafna sig eftir efnahagshrunið líkist það efnahagslegu sjálfsmorði að hrófla við kvótakerfinu sem reynst hefur svo vel," segir Brian Carney, sem situr í ritstjórn bandaríska viðskiptatímaritsins The Wall Street Journal. Frá þessu er greint á vef LÍÚ.
Brian Carney segir fiskveiðistjórnunarkerfið vera eina af ástæðunum fyrir því að Ísland sé að ná sér efnahagslega. Í grein sem hann skrifar undrast hann að ríkisstjórnin reyni að grafa undan kerfinu þegar ljóst sé að slíkt myndi aðeins skila sér í óhagkvæmari sjávarútvegi. „Íslenska hagkerfið er viðkvæmt og því furðulegt að þannig sé haldið á málum."
Brian hefur kynnt sér íslenska kvótakerfið og var meðal fyrirlesara á ráðstefnu um sjálfbæran og arðsaman sjávarútveg, sem haldin var í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands um helgina.