Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar undirrituðu í dag samning sem felur í sér að efla vöktun á súrnun hafsins og áhrifum hennar á lífríki og vistkerfi í hafinu umhverfis Íslands. Hafrannsóknastofnun fær 35 milljónir króna á árinu 2019 og 30 milljónir króna árlega á árunum 2020-2023, eða samtals 155 milljónir króna, til þessa viðfangsefnis. Ríflega 250 milljónum króna verður því varið til að efla vöktun á súrnun sjávar og á jöklum næstu fimm árin hér á landi.
Framlögum ársins í ár verður varið til kaupa á tækjabúnaði til þess að efla vöktun sem þegar á sér stað um sýrustig í hafi, en einnig til að hefja vöktun á botndýrum m.t.t. súrnunar sjávar. Niðurstöðunum verður m.a. skilað til alþjóðlegra stofnana og samvinnuverkefna sem Ísland tekur þátt í, auk þess sem þær verða nýttar í reglulegar vísindaskýrslur um afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Einnig var tilkynnt í dag um aukna vöktun Veðurstofu Íslands á jöklum á Íslandi undir heitinu Hörfandi jöklar.
Áður hafði verið ákveðið að efla vöktun á sjávarstöðubreytingum og skriðuhættu, m.a. með vísan í afleiðingar loftslagsbreytinga. Bætt vöktun á ofangreindum þáttum styrkir starf við hættumat og almannavarnir og nýtingu auðlinda, auk þess að bæta vísindalega þekkingu. Góð vöktun er líka lykill að aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum í framtíðinni.