Dráttarbátarnir Magni og Haki drógu flutningaskipið EF AVA síðasta spölinn til hafnar í Sundahöfn í morgun eftir að sprenging varð í vélarrúmi skipsins eftir hádegi í gær þegar það var statt 19 sjómílur undan Þorlákshöfn. Mikill reykur var í vélarrúmi en enginn eldur. Engin slys urðu á áhöfn. Þyrlu Landhelgisgæslunnar var flogið að skipinu með slökkviliðsmenn sem aðstoðuðu áhöfn við að meta aðstæður. Varðskipið Þór tók síðan skipið í drátt inn á Sundin þar sem dráttarbátarnir tóku við. EF AVA er leiguskip hjá Eimskip og sinnir siglingum á gulu leið félagsins. Skipið var að koma frá Immingham á leið til Reykjavíkur. Unnið er að því að meta bilunina og næstu skref.