Loðnuflotinn hefur verið við veiðar í Breiðafirði og skipin fengið fullfermi hvert á fætur öðru úr vestangöngunni svonefndu sem er loðna sem mældist úti fyrir Húnaflóa seint í febrúar. Ragnar Eðvarðsson, stýrimaður á Jóni Kjartanssyni SU, var í brúnni þegar slegið var á þráðinn.

Hann sagði góða veiði hafa verið í Breiðafirðinum á þriðjudag. Skipin voru að fá 600-700 tonn í kasti. Í gær Jón Kjartansson úti fyrir Meðallandsbugtinni á leið til Eskifjarðar með fullfermi. Það er engin skottúr að fara inn til löndunar því siglingin þangað tekur um 29 klst.

„Við fylltum bátinn um það bil tólf mílur suður af Látrabjargi og þarna voru þrjú önnur skip að veiðum. Við byrjuðum reyndar norðvestur af Garðskaganum og tókum þar um 800 tonn áður en við fórum vestur eftir í vestangönguna sem er komin í Breiðafjörðinn.“

Hærra hlutfall kvenloðnu

Hann segir hlutfall kvenloðnu mun hærra í vestangöngunni en í þeirri göngu sem veitt var úr úti fyrir Reykjanesi. Þetta sé eðal hrognaloðna. Nú fari að styttast í annan endann á vertíðinni og ekki nema einn túr eftir á Jóni Kjartanssyni áður en kvótinn klárast. Sama eigi við um Aðalstein Jónsson SU. Aðrir eigi enn talsvert eftir. Alls hafa veiðst yfir 220 þúsund tonn það sem af er vertíðar af 313 þúsund tonna heildarkvóta.

„Mér finnst ólíklegt að það náist að veiða allan kvótann því loðnan sem nú veiðist er nálægt því að fara að hrygna. Þó er vestangangan skemmra á veg komin en það sem við fengum úti fyrir Reykjanesi. Hún gæti hugsanlega verið einni viku lengur í veiði,“ segir Ragnar.