Þetta hefur verið með sama sama sniði í fjölda ára og það eru litlar sveiflur eða breytingar,“ segir Elías Guðmundsson, eigandi Fisk Club á Suðureyri, um ganginn í sjóstangaveiðinni í sumar.
Fisk Club leigir út sextán báta á sjóstangaveiði ásamt húsum fyrir erlenda veiðihópa sem koma viku í senn. Að sögn Elíasar eru Þjóðverjar fjölmennastir meðal viðskiptavina. Hollendingar og Bretar séu að sækja í sig veðrið. „Það eru þessar þrjár þjóðir sem skera sig úr,“ segir hann.
Miðaldra í seinna fríinu
„Þetta eru vinahópar sem koma og leigja sér báta og hús í eina viku. Þetta eru menn sem eru bara með veiðidellu og þetta er oft seinna fríið þeirra. Þegar þeir eru búnir að fara með fjölskylduna fara þeir í veiðiferðir,“ segir Elías.
Flesta þessa menn segir Elías vera fimmtíu ára eða eldri. Þeir fari ekki eingöngu til Íslands á sjóstöng. „Noregur er miklu stærri í þessu en Ísland og þar er þetta búið að vera miklu lengur við lýði. Kanada er eitthvað í þessu líka en Noregur er langstærstur,“ segir hann.
Öruggari bátar á Íslandi
Samkeppnisstaðan gagnvart Noregi er ekki góð í augnablikinu ef marka má Elías vegna hækkandi verðlags á Íslandi. „Það er skrítið að segja það en við erum orðin dýrari en Noregur,“ segir hann.
Sá munur er á Noregi og Íslandi að bátarnir sem leigðir eru út hér eru stærri. Segir Elías bátana í Noregi yfirleitt vera undir sex metra langa með utanborðsvélar en að hér séu þeir flestir 7,5 metrar með innanborðsvélar.
„Bátarnir hér eru skráðir sem krókaflamarksbátar og eru með allan öryggisbúnað sem slíkir. Bátarnir í Noregi eru ekki með björgunarbát, staðsetningartæki eða allan þann öryggisbúnað sem við erum með hérna heima,“ útskýrir Elías.
Mega taka í soðið en kaupa fisk til að taka utan
Aflann segir Elías af ýmsu tagi en að uppistaðan sé þó þorskur. Fyrirtækin í þessum geira leigi kvóta af ríkinu og á markaði. Í heild séu það rúmlega 300 tonn á ári.
„Aflinn fer bara í vinnslu eins og annar afli,“ segir Elías um veiðina sem kemur að landi. Veiðimennirnir geti tekið sér fisk í soðið hér á landi og síðan keypt fullunninn fisk úr vinnslunni til að taka með sér utan. „Og það gera þeir í stórum stíl,“ segir hann.
Alltaf gaman á Íslandi
Veiðin stendur fram í miðjan september. „En september hefur aldrei verið stór hjá okkur og það er samdráttur í bókunum þetta árið. Það er með þessa útgerð eins og almennt með ferðaþjónustu í landinu að verðlagið er farið að bíta alls staðar í keðjunni,“ segir hann.
Þeir sem leigja bátana eru sjálfir með skipstjórnarréttindi og róa því á eigin vegum. Sömu mennirnir koma gjarnan ár eftir ár að sögn Elíasar. „Þetta er skemmtilegt áhugamál og það er alltaf gaman að koma til Íslands.“