Dýrasvif spilar hugsanlega stórt hlutverk í að draga úr loftslagsbreytingum, að því er fram kemur í rannsókn háskólans í Strathclyde í Skotlandi.
Viss gerð dýrasvifs sem lifir á plöntusvifi, kallast árfætla. Hún byggir upp forða af kolefnaríku fituefni síðla sumars þegar hún heldur sig á yfirborði sjávar. Árfætlurnar leggjast í dvala yfir vetrarmánuðina á um einnar mílu dýpi og nýta sér þá þennan forða til að lifa af.
Við neyslu árfætlanna á fituríku kolefninu myndast koltvísýringur sem leitar ekki út í andrúmsloftið heldur verður eftir á sjávardýpi jafnvel um árþúsundir.
Rannsóknarhópurinn kallar þetta ferli „lípíðadælingu árfætlinga. Rannsóknirnar sýna að einungis ein tegund árfætlinga, Calanus finmarchicus, dregur til sín á milli eina og þrjár milljónir tonna af koltvísýringi úr andrúmslofti á hverju ári og ber það niður á dýpi Norður-Atlantshafsins.
Michael Heath, prófessor við stærðfræði- og tölfræðideild Strathclyde háskóla, segir að atferli árfætlanna að vetrarlagi hafi verið þekkt um nokkurt skeið en þetta sé í fyrsta sinn sem hlutur þeirra í geymslu á koltvísýringi sé mældur. Niðurstöðurnar gætu þýtt að Norður-Atlantshafið innihaldi helmingi meira magn af koltvísýringi en áður var talið.
„Þáttur koltvísýrings í loftslagsbreytingum og sú nauðsyn að gripið verði til aðgerða til að draga úr koltvísýringslosun mætir stöðugt meiri skilningi. Það mikilvægasta við rannsóknir okkar er að bregða ljósi á þátt árfætlinga í þessu ferli,“ segir Heath. Hann bendir á að spár um þróun loftslagsbreytinga taki ekki tillit til koltvísýringsflutnings árfætlinga úr andrúmlofti í hafið.