Ástþór Gíslason flytur erindi í málstofu Hafrannsóknastofnunar að Skúlagötu 4 næsta fimmtudag klukkan 12:30. Það nefnist: Dreifingu og flutningi dýrasvifs á Selvogsbanka að vorlagi lýst með svifsjá.
Í erindinu verður lýst útbreiðslu dýrasvifs og sviflægra agna á fín- og stórkvarða á Selvogsbanka í tengslum við umhverfisþætti og plöntusvif. Jafnframt verður lýst líklegum flutningsleiðum svifsins með því að tvinna saman upplýsingar um mergð og útbreiðslu svifs og niðurstöður þrívíddar straumalíkans af íslenska hafsvæðinu (CODE).
Gögnunum sem liggja til grundvallar var safnað í maí árin 2010, 2011 og 2013 með svifsjá, en það er neðansjávarsmásjá sem dregin er á eftir rannsóknaskipi og tekur í sífellu hágæða stafrænar litmyndir af svifi og lífrænu reki í sjónum sem er frá 50 µm til nokkurra sentímetra á stærð.
Rannsóknirnar leiddu í ljós að lífrænar leifar voru snar þáttur í kerfinu. Útbreiðsla helstu átutegunda var blettótt á fínkvarða (metrakvarða). Jafnframt kom fram mismunur í dreifingu á milli tegunda/hópa og á milli ára. Það hvort söfnunin fór fram að degi eða nóttu hafði ekki merkjanleg áhrif á lóðrétta dreifingu átunnar. Útbreiðsla fisklirfa virtist ótengd ferskvatnsáhrifum frá landi. Áta virtist ýmist færast vestur eða austur með landinu. Í erindinu verða sýnd nokkur dæmi um myndir af svifdýrum sem teknar voru með svifsjánni.