„Það var allt annað að fá þetta skip, það þarf bara að koma á hverju ári,“ segir Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinneyjar-Þinganess, um árangurinn af verki dýpkunarskipsins M/W Tristao Da Cunha sem var í Hornafjarðarósi í janúar og febrúar.
Hafnarstjórn Hornafjarðar bókaði sérstaklega um dýpkunarskipið á fundi sínum eins og sagði frá á vef Fiskifrétta á fimmtudag í síðustu viku. Kom þar fram að Tristao Da Cunha hefði dælt 230 þúsund rúmmetrum af efni af Grynnslunum þrátt fyrir mjög krefjandi aðstæður veðurfarslega.
„Hafnarstjórn lýsir mikilli ánægju með vinnu og afköst skipsins. Augljóst er að miklu skiptir að vera með jafn öflugt skip við dýpkun og raun ber vitni,“ bókaði hafnarstjórnin og bætti við að tryggja þyrfti framhald verkefnisins og kvaðst vilja fá skipið aftur síðsumars.
„Færi svo mætti ná allt að einni milljón rúmmetrum af efni sem gæti verið mikilvægt innlegg í þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á Grynnslunum síðustu ár og framtíðaráætlanir um uppbyggingu leiðigarða,“ sagði hafnarstjórnin.
Gerist ekki af sjálfu sér

Aðalsteinn tekur undir nauðsyn þess að haldið verði áfram á sömu braut. „Þetta er aðeins í annað skiptið sem það er svona skip hér um vetur en ég held að það séu nú allir orðnir sammála um það – og Vegagerðin líka – að þetta er það sem þarf að vera,“ segir hann. Efni sem sé á ferðinni og safnist fyrir í Grynnslunum hafi hingað til háð Skinney-Þinganesi sem sé með stór skip í sínum flota.
„Þetta hefur alltaf verið vont en nú vonum við að þetta hái okkur minna. Við erum að minnsta kosti sáttir við ef menn samþykkja það að þetta sé eitthvað sem þarf að gera á hverju ári. Á þetta höfum við oft bent. Þetta er ekki að fara að gerast af sjálfu sér,“ segir Aðalsteinn sem kveðst ekki heyra annað á Vegagerðinni en að hún sé sammála. Þetta verði því vonandi í lagi hér eftir.
Er það sem við treystum á
„Og það er það sem við treystum á þegar við ákváðum að byggja hér stóran frystiklefa og fjárfesta meira í mjölverksmiðjunni,“ segir hann
Talandi um fjárfestingar þá hefur heyrst frá útgerðinni að ef af hækkun veiðigjalds verði eins og ríkisstjórnin hefur nú lagt fram frumvarp um muni það leiða til þess að dregið verði úr nauðsynlegum fjárfestingum í sjávarútvegi.
Trúir ekki að þetta verði
„Þetta er bara ótrúlegt,“ svarar Aðalsteinn spurður um þessi hækkunaráform. „Ég ætla ekki að tjá mig mikið um það núna en þetta er bara svo skringilega unnið. Það hefði verið hægt að vinna þetta allt öðruvísi og miklu betur. Og taka þá að minnsta kosti umræðuna. Þessu er bara skellt á og nánast enginn tími gefinn til umsagna.“ Málið sé enn til skoðunar. „Menn eru bara að jafna sig. Þetta hefur ábyggilega áhrif, það getur ekki annað verið. Ég væri alla vega ekki í öllum þessum fjárfestingum sem ég er í dag ef þetta væri svona,“ segir hann.
Forstjórinn segist varla þurfa að svara því hvort útgerðin bindi vonir við að sú hækkun veiðigjalds sem nú hefur verið kynnt taki breytingum. „Maður trúir bara ekki að þetta verði en þú verður að tala við stjórnmálamennina um það.“