Dýpkun á Grynnslum í Hornafirði gekk afar vel í byrjun þessa árs þó að tíðarfarið hafi verið krefjandi.
Frá þessu segir í fundargerð hafnarstjórnar Hornarfjarðar þar sem fram kemur að hið öfluga dýpkunarskip M/W Tristao Da Cunha hafi unnið að dýpkun frá því í byrjun janúar. 230 þúsund rúmmetrum af efni hafi verið dælt af Grynnslunum þrátt fyrir mjög krefjandi aðstæður veðurfarslega. Dýpkunarskipið hafi síðan farið frá Hornafirði í lok febrúar. Það er núna á Nýfundnalandi.

Öflugt skip skipti augljóslega máli
„Hafnarstjórn lýsir mikilli ánægju með vinnu og afköst skipsins. Augljóst er að miklu skiptir að vera með jafn öflugt skip við dýpkun og raun ber vitni.
Vegagerðin, með dönsku straumfræði stofnuninni DHI, vinnur að skýrslu um hvernig til tókst í vetur og áhugavert verður að sjá niðurstöður skýrslunnar.
Nú þarf að tryggja áframhald verkefnisins en hafnarstjórn vill fá skipið aftur síðsumars. Færi svo mætti ná allt að einni milljón rúmmetum af efni sem gæti verið mikilvægt innlegg í þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á Grynnslunum síðustu ár og framtíðaráætlanir um uppbyggingu leiðigarða,“ segir hafnarstjórnin.