Áratugum saman hafa varðskip siglt meðfram ströndum landsins vegna eftirlits með ljósvitum, skerjavitum, sjómerkjum og ljósduflum sem ekki er hægt að komast í frá landi.

Frá þessu segir á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.

Áhöfnin á Þór og starfsmenn Vegagerðarinnar sjá um eftirlit og viðhald á vitum og öðrum sjómerkjum í ferðinni.  Meðal verkefna í vitatúrunum er að yfirfara rafgeyma og sólarspegla auk þess að endurnýja perur. Einnig er skipt um vindrafstöðvar auk annars tilfallandi viðhalds.

Dufl og legufæri voru yfirfarin. Legufæri ljósduflanna sem gjarnan er fjögurra tonna steinn ásamt allt að 70 metra langri keðju eru hífð upp á dekk Þórs og yfirfarin. Oft þarf að skipta út stórum hluta þeirra vegna tæringar.