Dúddi Gísla GK 048 landaði um sjö tonnum eftir dagsróður á mánudag. Hefur gangurinn verið með ágætum að undanförnu í veiðunum og stutt að sækja. Útgerðarfélagið Besa gerir Dúdda út og að því standa feðgarnir Benóný Þórhallsson og Þórhallur Benónýsson, sonur og sonarsonur Dúdda Gísla öðru nafni Þórhalls Gíslasonar sem gerðir út ýmsa báta um áratugaskeið frá Sandgerði. Dúddi Gísla lést árið 2018, þá á 102. aldursári. Þeir feðgar eru nú einu einyrkjarnir eftir í Grindavík á línu og ágætis myndarbragur er á útgerðinni.

Þórhallur, sem kallaður er Dúddi eins og afi hans, segir að veiðarnar hafi gengið mjög vel þetta haustið og hátt verð fáist fyrir fiskinn á mörkuðunum. Útgerðarmynstrið er með þeim hætti að róið er frá Skagaströnd eftir verslunarmannahelgi og fram í nóvember. Þá er haldið suður og róið frá Grindavík. Þótt ágætlega hafi legið á Þórhalli sagði hann Grindvíkinga harmi slegna vegna hins sorglega atburðar þegar maður á besta aldri féll fyrir borð á Sighvati GK í síðustu viku, en mikil samstaða og samhugur sé ríkjandi í samfélaginu.

Dúddi Gísla þriðji

Dúddi Gísla er 12 metra trefjaplastbátur smíðaður hjá Samtaki í Hafnarfirði 2008. Þórhallur segir bátinn hafa reynst ákaflega vel og áhöfnin gangi einstaklega vel um hann. Á vorin komi hann í slipp einungis í þvott og bón. Veitt er á 14 þúsund króka og fjórir eru í áhöfn. Kristinn Kárason hefur verið skipstjóri frá árinu 2000. Þeir feðgar byrjuðu í útgerðinni 1998 á nýjum bát frá Trefjum sem hét Dúddi Gísla. Áramótin 2000-2001 var keyptur annar bátur, sem fékk nafnið Gísli Einars í höfuðið á langafa Þórhalls, og voru þá tveir bátar gerðir út á balalínu. 2004 fengu þeir nýjan Dúdda Gísla frá Samtak sem var gerður út í eitt ár með bala. Þá var byggt yfir hann og sett upp beitningarvél og hann gerður út fram til ársins 2008. Núverandi bátur er sá þriðji sem heitir Dúddi Gísla.

Jöfn og há verð

Þórhallur segir kvótastöðuna auðvitað mega vera betri en reynt sé að gera eins vel og kostur er úr því sem fyrir hendi er.

„Við erum að veiða í kringum 650 tonn upp úr sjó á ári. Við vorum áður með litla fiskvinnslu hérna í Grindavík frá 2012 til 2016 en þetta var of lítil eining til þess að standa undir sér. Núna fer allt sem við veiðum á markað. Ég man ekki eftir svo jöfnum og háum verðum yfir svona langt tímabil. Verð hafa yfirleitt tekið dýfu niður þegar Norðmenn byrja að trukka fisk niður á meginlandið í janúar. En það gerðist ekki í fyrra. Þannig að verðstöðugleikinn er meiri en nokkru sinni áður,“ segir Þórhallur.

Þórhallur Benónýsson útgerðarmaður.
Þórhallur Benónýsson útgerðarmaður.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Eins og hjá öðrum útgerðum varð skerðing í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári en á móti kom aukning í ýsu. Gott verð hefur fengist líka fyrir ýsuna á mörkuðum. Áhrifin af skerðingunni hafi því jafnast tiltölulega vel út.

„Við spilum þetta líka mikið eftir aðstæðum. Ef verð lækka mikið á mörkuðunum þegar líður á vikuna þá förum við bara snemma í helgarfrí. En það var fínasta veiði í gær, rúm sjö tonn, hérna rétt í túnfætinum. Það fer því ekki mikið fyrir olíukostnaðinum þessa dagana,“ segir Þórhallur.