„Það er bara endalaus þolinmæði sem þarf í þetta,“ segir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman á Suðureyri við Súgandafjörð.
„Dropinn holar steininn,“ segir hann svo. „Þetta er langhlaup, mælt í árum en ekki mánuðum.“
Elías stofnaði Fisherman fyrir um tveimur áratugum og starfsemin hefur vaxið jafnt og þétt, byrjaði með ferðaþjónustu en fljótlega bættist matvælaframleiðsla við. Erlendum gestum var boðið að smakka íslenskar fiskibollur og fleira, en nú er útflutningur á sjávarafurðum í neytendaumbúðum að verða æ stærri hluti rekstrarins.
Jólin í Danmörku
Nýjustu fréttir af þeim vettvangi er samningur við dönsku verslunarkeðjuna Irma, sem tekur til sölu reyktan lax og silung frá Fisherman, alls fjórar tegundir.
„Við byrjum að senda þeim núna í september, október þannig að við fáum að vera með í jólavertíðinni hjá þeim,“ segir Elías.
Elías ræddi þessi mál í erindi sem hann flutti hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja í vor. Þar sagðist hann meðal annars vera bjartsýnn á að allt vakni til lífsins á ný strax og covidtímabilinu lýkur fari allt á fulla ferð aftur, og Fisherman sé vel undir það búið. Fiskifréttir hafa áður sagt frá sumu því sem þar kom fram, en slógu á þráðinn til að forvitnast betur um markaðsvinnu fyrirtækisins erlendis.
Elías nefnir að um þessar mundir er Fisherman að nýta sér möguleika, sem Evrópusambandið er að opna á nú í sumar með breytingum á tollalögum, sem gerir fyrirtækjum það kleift að flytja vörur út héðan ótollaðar. Tollurinn verði ekki afgreiddur fyrr en varan er seld áfram til annarra landa Evrópusambandsins.
Tollfrjálst svæði
„Þetta mun gjörbreyta netverslun með matvörur í dreifingu innan Evrópusambandsins. Við erum núna að setja upp dótturfyrirtæki í Hollandi, þannig að við getum átt vörur þar á tollfrjálsu svæði í staðinn fyrir að tolla hana strax og hún kemur inn í landið. Við verðum með vörulager þar og getum afgreitt út af því beint til viðskiptavina, bara tollað þá við sölu en ekki við flutninginn út héðan.“
Hann segir reyndar að það hafi tekið lengri tíma en til stóð að setja þetta upp, „en þetta er að opna fyrir okkur ákveðna markaði upp á dreifingu að gera. Í staðinn fyrir að senda eina og eina sendingu héðan á hvert land fyrir sig, og vera með tollauppgjör á hverja einustu sendingu, þá getum við verið með netverslun sem gerir okkur kleift að ganga frá viðskiptunum alla leið óháð landamærum.“
Fisherman er nú þegar með sölusamninga inn á Danmörku, Þýskaland og Frakkland, og fleira er í bígerð. Einnig er eitthvað selt inn á Ameríku, en það segir Elías ekki vera mikið magn. Allt eru þetta vörur með íslensku vörumerki sem framleiddar eru alfarið á Íslandi.
„Það var stofnað til þessa fyrirtækis til að koma þessu á alþjóðamarkað og það er fyrst núna sem við sjáum það vera að gerast. Við teljum okkur geta sýnt það í verki núna að það er hægt að dreifa neytendavörum erlendis undir íslensku vörumerki.“
Lokað til Ástralíu
Ýmsir hnökrar og hindranir geta þó komið upp þegar reynt er að komast inn á markaði erlendis. Þannig hefur Fisherman lengi reynt að fá leyfi til þess að flytja vörur til Ástralíu, en ekkert gengið.
„Við erum með sölusamning við Ástralíu og höfum ekkert getað afhent þangað inn,“ segir Elías. „Við vorum svo heppin að við komumst inn á sölukanala þangað í gegnum annan erlendan aðila sem við erum að vinna með. En svo þegar við létum á það reyna þá var það ekki hægt.“
Ekki er þó öll nótt úti enn hvað það varðar, en málið hefur verið að velkjast um í kerfinu árum saman, bæði hér heima og í Ástralíu. Elías bíður hinn rólegasti í von um að á endanum gangi þetta allt upp.
„Þetta tekur bara óralangan tíma, en það er búið að taka mörg skref í þessu máli. Embættismenn bæði í Ástralíu og hér heima hafa verið að vinna þessu brautargengi. Ég hef fulla trú á því að það takist, það þarf bara að gefa því þann tíma sem þarf.“
Það var strax árið 2015 sem íslensk stjórnvöld sóttu um leyfi til þess að flytja lax og silung frá Íslandi til Ástralíu. Þremur árum síðar, í nóvember 2018, komu fulltrúar frá Ástralíu hingað til lands og í desember 2019 sendi ástralska ráðuneytið íslenskum stjórnvöldum ítarleg drög að skýrslu um málið. Ástralir gerðu kröfu um að Matvælastofnun Íslands myndi innleiða sérstaka verkferla við eftirlit með útflutningnum, þar sem miðað væri við innflutningskröfur Ástralíu.
Að sögn Sigmars J. Halldórssonar hjá MAST er málið bara í eðlilegum farvegi. Milliríkjasamskipti taki oft mjög langan tíma og nú sé beðið eftir næsta svari frá Ástralíu. Ástralir séu mjög varkárir, sama hvort um fisk er að ræða eða annað.
„Ástralir taka sér bara þann tíma sem þeir þurfa. Þetta er í vinnslu og ekki endanlega búið að ganga frá því.“