Umtalsvert dró úr útflutningi á heilum fiski til vinnslu erlendis fyrstu tíu mánuði síðasta árs. Á fyrstu 10 mánuðum ársins er samanlagður útflutningur í þorski, ýsu, ufsa, karfa og steinbít alls um 27 þúsund tonn sem jafngildir 18% samdrætti frá sama tíma í fyrra. Borið saman við árið 2021 hefur magnið hins vegar minnkað um tæp 18 þúsund tonn eða 40%. Tölurnar hefur Landssamband smábátaeigenda unnið upp úr gögnum frá Hagstofu Íslands.

Verðmæti þess magns af heilum fiski sem fluttur var út til vinnslu erlendis fyrstu tíu mánuðina nam 11,8 milljörðum, 1,3 milljörðum lægra en 2022 og 2,8 milljörðum lægra en árið 2021.

Mest var flutt út af karfa 9.481 tonn að verðmæti 3,4 milljarðar. Þá voru flutt út 7.907 tonn af þorski en þar lágu mestu verðmætin, 4,8 milljarðar.

Ýsa var eina tegundin þar sem magnið jókst milli ára, 5.254 tonn í ár á móti 3.728 tonnum á fyrstu 10 mánuðum sl. árs. Ýsa var jafnframt eina tegundin sem lækkaði í verði milli ára og nam lækkunin 14%. Nánar má lesa um þetta hér.