„Það var rólegt yfir veiðinni og greinilegt að það er að draga úr makrílgengdinni í Síldarsmugunni. Þá er veðráttan að versna og meira um kaldafýlur en í sumar. Þetta gerir alla leit erfiðari. Makríllinn virðist nú halda sig á litlum blettum mjög víða og er fljótur að veiðast upp. Það er ekkert greinilegt göngumynstur á makrílnum og veiðin getur stundum komið upp á ólíklegustu stöðum,“ segir Hjalti Einarsson, skipstjóri á Víkingi AK 100, í viðtali á heimasíðu Brims. Í síðustu veiðiferð fékkst 770 tonna afli og var landað á Vopnafirði á miðvikudagsmorgun.
Albert Sveinsson, skipstjóri á Venusi NS 150 tekur undir með honum.
„Á tímabili virtist makríllinn hreinlega hringsóla á stóru hafsvæði. Það er vafalaust ætið sem veldur því hvert makríllinn stefnir hverju sinni. Það getur snögglega komið upp veiði nyrst í Síldarsmugunni á sama tíma og veiðin er góð syðst,“ segir Albert.
Makríllinn sem veiðst hefur í sumar og haust er stór og hentar vel til vinnslu. Meðalvigtin hefur aðeins lækkað eftir því sem liðið hefur á haustið en í þessari síðustu veiðiferð Víkings var hún um 450-460 grömm.