Mestöll ýsa sem skip Vinnslustöðvarinnar hafa fært að landi hefur annað hvort verið seld á markaði hérlendis eða flutt úr landi í gámum. Ýsan verður eftir kaupin að hluta flutt frá Eyjum til Hafnarfjarðar og unnin þar.
Garðar Sigurjónsson tók við sem framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Vestmannaeyja í september síðastliðnum. Þann mánuð var sögulega lítið boðið upp af fiski á markaðnum eða alls 115 tonn. Garðar segir að frá árinu 1992 hafi að meðaltali farið 376 tonn í gegnum markaðinn í septembermánuði. Umsvifin hafi þó aukist í október þegar 202 tonn fóru um markaðinn og staðan skánaði enn í nóvember þegar 324 tonn fóru um markaðinn sem var yfir meðaltali síðustu ára.
„Mest eru það skip Vinnslustöðvarinnar og Ísfélagsins sem landa hjá okkur og líka hefur Frár VE selt í gegnum markaðinn. Við fáum líka alltaf eitthvað frá Vestmannaey VE, Bergey VE og Þórunni Sveinsdóttur VE. Á vertíðinni erum við líka mikið að selja afla af minni bátum og trillunum hér í Eyjum. Þegar stóru húsin eru á kafi í vinnslu á uppsjávarfiski þá berst oft mikið magn frá bolfiskskipunum,“ segir Garðar.
Loðnan hefur áhrif
Þegar Ísfélagið tilkynnti kaup sín á uppsjávarskipinu Ginneton, nú Suðurey VE, var um leið gefið út að bolfiskveiðar myndi leggjast af hjá félaginu meðan loðnuvertíð stendur sem hæst. Sá háttur hefur áður verið hafður á hjá Ísfélaginu.
Einnig hefur það áhrif á framboðið á fiskmarkaðnum að töluvert er selt af óunnum bolfiski beint úr landi í gámum.
„Ég ekki von á því að við fáum mikið af ýsu frá Vinnslustöðinni eftir kaup þeirra á Hólmaskeri. Það er nú þegar byrjað að senda ýsu til Hafnarfjarðar og Fiskmarkaðinn munar mikið um það. Það sem af er þessu ári hafa 4.700 tonna afli farið í gegnum markaðinn og þar af eru 775 tonn af ýsu frá Vinnslustöðinni sem er næstum einn fimmti af heildarmagninu. Ég vona að þetta hverfi ekki alveg úr okkar umsýslu en við sjáum hvað setur.“
Stærsti einstaki kaupandinn á Fiskmarkaði Vestmannaeyja er Atlantic Seafood sem reyndar er stærsti einstaki kaupandi á öllum fiskmörkuðum landsins. Fyrirtækið starfar við útflutning á óunnum fiski til erlendra kaupenda.