Dregið hefur úr arðsemi norska uppsjávarflotans og nauðsynlegt er að hagræða í útgerðinni til að bæta afkomuna, að því er fulltrúa DnB-bankans sagði í ræðu sem hann hélt á fundi með norskum útgerðarmönnum. Frá þessu er greint í Fiskeribladet/Fiskaren.
Í samantekt bankamannsins er byggt á afkomutölum frá norsku fiskistofunni fyrir árið 2011 og upplýsingum sem bankinn hefur um rekstur uppsjávarskipa á árinu 2012. Minnkandi kvótar í uppsjávarfiski og lækkandi fiskverð skýrir lakari arðsemi. Þá hefur fjárfestingargleði í greininni rýrt afkomu hennar. Útgjöld vegna fjárfestinga hafa aukist og eiginfjárhlutfall lækkað.
Frá árinu 2000 og allt fram til ársins 2011 hefur ríkt góðæri hjá uppsjávarflotanum en bakslagið kom 2012 og búist er við að árið í ár verði engu betra. Þar vegur þyngst að meðalverð á makríll hefur lækkað úr 12,31 krónu á kíló árið 2011(248 krónur ISK) í 7,33 krónur árið 2012 (147 ISK).
Í norska uppsjávarflotanum eru 80 nótaskip og 32 uppsjávartogarar. Úthaldsdagar þeirra eru 100 til 150 á ári. Það er einkum afkoman hjá útgerðum nótaskipa sem hefur versnað. Hagnaður fyrir skatta á árunum 2009 til 2011 var 12,9 milljónir (260 milljónir ISK) að meðaltali en minnkaði í 5,3 milljónir árið 2012 (106 milljónir ISK). Staðan er betri hjá uppsjávartogurum. Þeir juku tekjuafgang sinn úr 2,4 milljónum króna (48 milljónir ISK) að meðaltali í 3,7 milljónir króna (74 milljónir ISK) á sama tíma.