Þórir SF, togskip Skinneyjar-Þinganess, var á Breiðamerkurdýpinu á humarveiðum þegar slegið var á þráðinn til Jóns Þorbjörns Ágústssonar skipstjóra. Hann sagði veiðarnar ganga treglega um þessar mundir. Humarveiðarnar hófust um miðjan apríl og var þokkalegur gangur í veiðunum fyrstu dagana.
„Þetta er samt ekki svipur hjá sjón miðað við hvernig þetta var áður fyrr. Það dregur líka hratt úr veiði eins og er. Tíðarfarið hefur ekki heldur verið upp á það besta alla síðustu viku,“ segir Jón.
Að meðaltali hefur holið verið að gefa 45 kíló af skottum og það þykja engin ósköp. Jón er á sinni 20. humarvertíð í röð í þessari lotu og það hallar undan fæti í þessum veiðum. Hann segir að veiðisvæðin gefi mismunandi vel á mismunandi tímum en ekkert þeirra hefur verið afgerandi í þeim efnum. Tvö helstu svæðin séu auk þess lokuð fyrir humarveiðum, það er Lóndýpið og Jökuldýpið.
„Það væri ráð að spyrja einhvern frá Hafró hvenær þar verður opnað fyrir veiðar. Rannsóknir á humarstofninum eru afar takmarkaðar. Það væri góð byrjun að reyna að komast að því hvað veldur þessu ástandi. Það er ekki hægt að rífast um það að humarveiðin er lítil,“ segir Jón.
Vantar rannsóknir
Hann segir það glætu í myrkrinu að borið hafi á litlum humar í aflanum. En það vanti rannsóknir til þess að hægt sé að fullyrða að um nýliðun sé að ræða fremur en að þarna séu einfaldlega litlar humarkerlingar á ferðinni. Þó hefur hann heyrt að talað sé um að einhver nýliðun eigi sér stað en þó ekki í miklu magni.
Aðspurður um hvort honum finnist koma til greina að banna humarveiðar meðan ástandið er eins og það er segir Jón að þær litlu rannsóknir sem séu stundaðar séu í formi veiða. Án þeirra var vitneskjan um ástand humarstofnsins engin.
Hann segir veiðarnar reyndar hafa gengið vonum framar framan af en hratt dragi úr veiðinni. Um leið gekk hratt á þann litla kvóta sem í boði var.
Meðafli heldur afkomunni uppi
„Lónsdýpið og Jökuldýpið eru lokuð og því er meiri áníðsla á þeim svæðum sem eftir eru. Svo eru hugsanlega ný svæði. Það hefur til dæmis frést af humri í Berufjarðarál og Kolluál en það hefur ekki verið rannsakað af þar til bærum stofnunum. Það er vitaskuld ekki til endalaust fjármagn til rannsókna en þarna bíða þörf verkefni Hafrannsóknastofnunar.“
Jón segir afkomuna af humarveiðum ólíkt verri en hún var á fyrri tíð. En þessum veiðum núna fylgi meðafli, eins og þorskur og skötuselur, sem haldi afkomunni uppi. Hann segir að talsvert hafi verið af skötusel í byrjun veiðanna en hann er fáséðari eftir því sem ásóknin á svæðin hefur aukist.
Skinney SF byrjaði einnig um miðjan apríl á humarveiðum og eins og hjá Þóri SF var þokkaleg veiði fyrstu túrana en svo hefur dregið úr henni. Skipstjóri á Skinney er Þorsteinn Guðmundsson. Hann segir að skást hafi verið í einum af fyrstu túrunum þegar fengust um 1,5 tonn af skottum. Mjög rólegt sé yfir veiðunum núna. Búið var að veiða rúmlega helming af þeim litla kvóta sem í boði var. Aðeins hafi menn borið á smáum humri sem sé jákvætt.