Fulltrúar á fundi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í London fyrr í mánuðinum samþykktu að draga skuli úr losun gróðurhúsalofttegunda í alþjóðasiglingum um helming til ársins 2050.

Bent hefur verið á að vistspor siglinga í heiminum sé álíka stórt og Þýskaland. Einungis fimm lönd eru með meiri losun gróðurhúsalofttegunda en siglingarnar samanlagðar.

IMO telur að verði ekkert að gert muni losunin í millilandasiglingum aukast um helming til ársins 205o, en Evrópusambandið hefur gengið út frá því að losunin geti fimmfaldast á þessum 22 árum.

Allt frá því Parísarsamkomulagið um að draga úr losun var gert árið 2015 hefur verið ljóst að ganga þurfi frá sérstöku samkomulagi varðandi siglingar.

Parísarsamningurinn tók hvorki til alþjóðlegrar skipaumferðar né flugumferðar vegna þess hve erfitt var að skipta þeim niður á löndin. Flókið var að svara spurningum um það hvort losun eigi að skrifast á landið sem skipin sigla til eða frá, eða hvort eigandi farmsins sem gæti verið í þriðja landinu ætti að bera ábyrgð á losuninni. Og þar sem þetta blandast oftast saman með ýmsum hætti er flækjustigið frekar hátt.

Samkomulagið sem tókst á fundi IMO í London 13. apríl síðastliðinn er hugsað sem fyrsta skrefið í áttina að því að draga úr losun í siglingum. Árangurinn fer þó eftir því hvernig framkvæmdin verður, en enn á eftir að útfæra nánar þau markmið sem sett voru í London.

[email protected]