Á fiskveiðiárinu 2016/2017 dregst almennur byggðakvóti saman úr 6.852 tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári í 5.623 tonn. Á sama tíma hækkar byggðakvóti Byggðastofnunar úr 4.901 tonni í 5.634 tonn.
Aflamarkið kemur af frádregnu 5,3% af heildarafla hverrar tegundar samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða 116/2006. Undir aflamarkið fellur m.a afli til línuívilnana, strandveiða, rækju og skelbóta, frístundaveiða, áframeldi á þorski og byggðastuðnings.
Á grunni byggðarstuðnings í lögunum er veittur tvenns konar kvóti, almennur byggðakvóti og byggðakvóti Byggðastofnunar. Byggðakvóta Byggðastofnunar er úthlutað af stofnuninni til byggðarlaga sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og er gerður samningur um veiðar og vinnslu til nokkurra ára að uppfylltum vissum skilyrðum. Almennum byggðakvóta er ráðstafað af atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu sem úthlutar samkvæmt reglugerð. Þar er um að ræða byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum og/eða vinnslu á botnfiski og byggðarlögum sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum.
Samtals verður úthlutað 11.257 tonnum úr byggðakvótum samanborið við 11.753 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári.