Matís hefur birt afrakstursskýrslu sína fyrir árið 2019 þar sem farið er yfir þann hluta starfseminnar sem fellur undir þjónustusamning við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Oddur Már Gunnarsson forstjóri segir í ávarpi sínu að árið hafi verið viðburðaríkt hjá Matís: „Við stóðum sannarlega í ströngu og þurftum að leysa fjölmörg krefjandi verkefni.“
Hann segir mikinn ávinning hafa orðið af fjármögnun ráðuneytisins í rannsókna- og nýsköpunarverkefnum, en fyrir hverja eina krónu sem ráðuneytið fjárfesti í rannsóknum hjá Matís árið 2019 hafi fyrirtækið sótt 2,2 krónur til viðbótar úr samkeppnissjóðum.
Rannsóknaráherslur fyrirtækisins skiptast í þrjá meginflokka: Verðmætasköpun, lýðheilsu og matvælaöryggi. „Sjávarútvegur kemur við sögu á öllum þessum sviðum, en þó kannski mest enn sem komið er þar sem áherslan er á verðmætasköpun,“ segir í skýrslunni.
Sérstaða Íslands
„Ein helsta sérstaða Íslands er einmitt hversu vel okkur hefur tekist að skapa verðmæti úr auðlindunum og tengja þarfir erlendra markaða við veiðar og vinnslu. Matís hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að skapa þessa sérstöðu og unnið með atvinnulífinu að rannsóknum og þróun til að ná sem mestum verðmætum úr auðlindunum, til að mæta kröfum neytenda og auka sjálfbærni.“
Þar hefur verðmætasköpun úr hliðarafurðum verið eitt mikilvægasta verkefnið og eru nefnd þar til sögunnar „þurrkun á hausum og hryggjum, nýtingu á lifur til niðursuðu eða í lýsisgerð, hrognum í mismunandi ídýfur og nú á síðustu árum að nýta roð í gelatín og kollagen.“
Makríllinn nýttur
Á síðustu árum hefur einnig stór hluti af rannsóknastarfi Matís snúist um makrílinn og að finna leiðir til að nýta hann til manneldis. Í skýrslunni segir að þetta starf hafi á síðustu tíu árum skilað þjóðarbúinu á annað hundrað milljörðum.
„Rannsóknir hafa verið gerðar á möguleikum þess að flaka makríl og skoðað hvernig unnt er að ná upp viðunandi geymsluþoli á flökum í frosti.“ Ennfremur séu hugmyndir að mótast um að „nýta betur það sem nú fer í mjöl og lýsi og vinna úr því verðmætari afurðir, t.d. íblöndunarefni í matvælaiðnað, fæðubótarefni eða verðmæt viðbótarefni í fóðurgerð.“
Þá hefur Matís undanfarin ár beint sjónum að sjávarlíftækni sem felur í sér rannsóknir og þróun á vinnslu lífvirkra efna úr íslensku sjávarfangi, meðal annars í samstarfi við Genís á Siglufirði og Prótis á Sauðárkróki.
Þá segir að Matís taki nú þátt í verkefnum sem lúta að hagnýtingu stórþörunga, þar sem unnið er að því „að umbreyta flóknum þangsykrum í ýmis konar efni allt frá lífeldsneyti í efni sem notuð eru í lyfjaiðnaði og við gerð lífplasts.“