SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, flaug yfir úthafskarfamiðin á Reykjaneshrygg í gær og sá 15 erlend skip. Haft var samband við skip á svæðinu til að forvitnast um aflabrögð og voru þau búin að vera dræm eða 3 – 5 tonn á sólarhring, að því er segir á vef Gæslunnar . Einnig voru dæmi um að skip væru ekki að senda frá sér merki í ferilvöktun og var nóg að endurræsa tæki og þá hófust sendingar að nýju.
Í sömu ferð hafði áhöfn flugvélarinnar afskipti af tveimur bátum sem voru staðsettir um 30-35 sml, djúpt SV af Reykjanesi og voru ekki lengur innan ferilvöktunarkerfa og þ.a.l. ekki lengur með gilt haffærisskírteini. Bátar sem gera þetta eru komnir út fyrir VHF drægi og eru því í slæmu síma og fjarskiptasambandi. Var áréttað við þá að halda sig innan svæðis.