Makrílveiðar stærri skipa í Noregi fara hægt af stað og mun hægar en í fyrra, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Um 20 báta er á sjó að leita af makríl við Aktivneset, sem eru mið vestur af Ålesund, og lengra vestur. Nokkrir bátar hafa farið inn í lögsögu ESB og upp að landhelgislínunni við Færeyjar. Þar hefur verið tilkynnt um 270 tonna afla.

Í þessari vikur hafa stærri skipin, sem veiða nálægt landi eða í úthafinu, tilkynnt um 1.400 tonna makrílafla. Í sömu viku í fyrra veiddust 13.200 tonn. Vikuna þar á eftir í fyrra veiddust 54 þúsund tonn.

Meðalverð á makríl í þessari viku var 8,9 krónur norskar á kíló (um 180 ISK) fyrir makríl sem er að meðaltali 396 grömm að þyngd. Á sama tíma í fyrra var meðalþyngdin á makrílnum heldur meiri og verðið 7,5 krónur. Verðið nú er ekki talið alveg marktækt þar sem framboð er lítið. Búist er við því að í næstu viku aukist veiðin og þá kemur betur í ljós hvað kaupendur eru í raun tilbúnir að greiða hátt verð fyrir makrílinn.