Þeir voru lítið fyrir spjallið einbeittu dorgararnir á Ægisgarði á dögunum. Upplýstu þó að aflabrögð hefðu verið dræm. Nokkrir kolar komnir á land og einn smáufsi. Þeir veiða á stöng og eru með sökku. Beitan er helst soðin og skelflett rækja. Umhverfið er gefandi þarna skammt frá hvalbátunum sem enn eitt sumarið liggja sem fastast við bryggju. Hvalskoðunarbátarnir eru í stöðugum ferðum og urmull ferðamanna þarna á Ægisgarði sem margir eru forvitnir um aflabrögðin hjá yngstu kynslóð íslenskra fiskimanna.