Dögg SU, smábátur með beitningarvél í eigu Hornfirðinga en með heimahöfn á Stöðvarfirði, landaði  22.372 kílóum úr einum róðri nú í október og sló þar með aflamet Ragnars SF frá Hornafirði. Ekki munaði þó meiru en 31 kílói.

Á vefnum Aflafrettir.com er haft eftir Vigfúsi Vigfússyni skipstjóra á Dögg SU að aflinn hafi fengist á einungis 16 rekka eða 16.000 króka. Ef aflinn er umreiknaður til 480 króka á bala gerir hann 671 kíló á balann. Aflann fengu þeir á um 140 föðmum í svokölluðum Djúpkanti, um 45 mílur frá landi. Þorskurinn var í makríl- og síldaræti.

Aflinn fór allur á markað og seldist á um 9,4 milljónir króna sem er um 420 króna meðalverð.

Í næsta róðri var líka mok hjá Dögg SU, aflinn 19,5 tonn á 16.000 króka eða sem svarar 585 kíló á bala.

Sjá nánar á aflafrettir.com