Matís, Sæbýli og breska fyrirtækið FishVet Group hafa hafið samstarfsverkefni sem miðar að því að greina örverusamsetningu í eldiskerfum og leit að örveruhópum sem hafa mögulega jákvæð eða neikvæð áhrif á lífvæni eða vöxt sæeyrna.
Verkefnið kallast SustainLarvae og er til þriggja ára. Það hlaut brautargengi í gegnum Eurostar áætlunina með milligöngu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og fjármögnun frá Tækniþróunarsjóði .
Markmið verkefnisins eru að þróa og meta ávinning nýrra leiða til að meta heilbrigði hryggleysingja til notkunar í fiskeldi en notast verður við sæeyru frá eldisstöðinni Sæbýli.
Nýnæmið felst m.a. í notkun DNA raðgreiningaraðferða til að greina örverusamsetningu í eldiskerfunum og leit að örveruhópum sem geta haft möguleg jákvæð eða neikvæð áhrif á lífvæni eða vöxt sæeyrnanna.
Einnig verða settar upp hraðvirkar aðferðir til að meta velferð dýranna með út frá óæskilegum örverum í kerfinu og með mælingum á efnum og hormónum sem dýrin losa sig við undir streitu.
Matís mun sinna tilraunum og rannsóknum í verkefninu. Sæbýli mun útvega verkefninu efnivið ásamt sérþekkingu á eldisaðferðum og FishVetGroup mun koma að markaðsmálum og aðgengi að erlendum mörkuðum fyrir afurðir verkefnisins.