Sú ákvörðun World Wildlife Fund, WWF, að halda Norðursjávarþorski á svokölluðum "rauðum lista" hefur valdið misskilningi á meðal kaupenda sjávarafurða, neytenda og stjórnmálamanna. Sjávarútvegsvefurinn IntraFish hefur þetta eftir heimildarmönnum innan atvinnugreinarinnar í Þýskalandi.
Þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi í desember sl. ákveðið að auka þorskkvóta í Norðursjónum um 30% í ljósi betra ástands þorskstofnsins hefur WWF ekki fjarlægt þorskinn af "rauðum lista" samtakanna. Þau halda því fram að Norðursjávarþorskur sé enn ofveiddur. Samtökin hafa flokkað fisktegundir í grænt, gult og rautt og hvatt neytendur til að sniðganga tegundir sem eru á rauðum lista þess.
Í frétt IntraFish segir að misvísandi skilaboð þýskra stjórnvalda bæti ekki úr skák. Þannig styður eitt ráðuneyti ákvörðun um auknar veiðiheimildir á meðan annað styður WWF og stefnu þess í málinu.
"Algert klúður," segir Matthias Keller, formaður samtaka þýskra fiskvinnslustöðva. "Kaupendur og neytendur þurfa áreiðanlegar upplýsingar. Það markmið næst ekki á meðan eitt ráðuneyti segir að allt í lagi sé að borða þorsk en annað ráðuneyti heldur fram hinu gagnstæða."
Skýrt er frá þessu á vef LÍÚ.