„Þetta er milljón dollara spurningin,“ svarar  Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, spurður hvaða fyrirkomulag sé best í strandveiðum.

Ekki náðist samstaða í atvinnuveganefnd um frumvarp sem Svandís Svavarsdóttir lagði fram í vetur sem leið um breytingar á strandveiðikerfinu. Stefán segir að markmiðið með frumvarpinu hafi verið að jafna og dreifa veiðiálagi á strandveiðisvæðin þannig að þorskkvótinn sem gefinn er út sé ekki búinn þegar veiðin fer í gang á svæði C, austursvæðinu.

„Kvótinn er oft búinn þegar þeir geta farið í þennan verðmæta fisk sem þeir eru að bíða eftir, stærri fiskinn,“ segir Stefán sem kveður mjög miklar efasemdir um og  gagnrýni á frumvarp ráðherra hafa komið fram. Það myndi  í raun gera leikinn enn ójafnari.

Ástæða fyrir þessu kerfi

„Ef menn myndu fara í þessar breytingar sem frumvarpið fól í sér þá myndi fara að halla verulega á norðvestursvæðið, svæði A. Aflinn myndi þá færast að verulegu leyti norður og austur,“ segir Stefán.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis.

Sumir telja strandveiðar utan hins hefðbundna kvótakerfis vera óhagkvæma tímaskekkju og telja að leggja ætti þær af. „Ég er ekkert sammála því. Það var ástæða fyrir þessu kerfi og við eigum að hafa það áfram,“ svarar Stefán spurður um sitt viðhorf. Hann minnir að til sé dómur um að ekki sé hægt að banna einstaklingum að róa til fiskjar.

„Þetta er einfaldlega gríðarlegt byggðamál og það þarf að finna leið til þess að það geti gengið,“ segir hann. Strandveiðimenn einblíni margir á að halda núverandi kerfi sem feli í sér 48 róðrardaga.

„Þá þarf að auka við kvótann. Svandís hefur sagt að það sé ekki í boði og að það eigi að hlusta á vísindamennina okkar varðandi þann kvóta sem er í boði,“ segir Stefán sem kveðst þá hafa velt fyrir sér annarri leið.

Nærð í fiskinn þegar hentar

„Af hverju deilum við ekki bara kvótanum niður á þessa sjö hundruð báta?“ segist Stefán spyrja sig og nefnir þar þann fjölda báta sem höfðu leyfi til strandveiða í sumar.

„Þá sé þeim í sjálfsvald sett hvenær þeir ná í sinn skammt, þeir ná þá bara í hann þegar hann er verðmætastur, þegar veðrið er best og þeir fá mest fyrir sinn róður. Þetta snýst náttúrlega um það að reyna að koma með sem mest verðmæti í land, verðmætasta fiskinn í land,“ segir Stefán.

Þetta segist Stefán velta fyrir sér sem „millileið“ sem hægt væri að skoða.

„Menn tala um að þeir séu að fara út í vitlausum veðrum til að ná í smáfisk sem þeir fá ekkert fyrir að því að þeir vilja fara út og ná einhverju áður en allt lokast.  Af hverju kemur það okkur eitthvað við hvenær þú nærð í fiskinn þinn?“

Fyrir sjómanninn segir Stefán málið hljóta að snúast um að ná sem verðmætasta fiski í land.

Kerfin trufli ekki hvort annað

„Þó að þú fari færri ferðir og fáir ekki 48 dagana en getur farið á þeim tíma sem þú nærð verðmætasta fiskinum þegar hann er í mestri nálægð við þig þá ertu að hámarka arðsemi veiðanna,“ segir Stefán sem kveður strandveiðikerfið ekki þurfa að trufla stóra kvótakerfið og að stóra kerfið ekki að trufla strandveiðikerfið. Þetta sé alveg sitt hvort málið.

„Við sjáum það í sjávarbyggðunum að þetta skiptir máli og ég er algjörlega á því að þetta kerfi eigi að vera áfram. Við þurfum bara að finna einhvers konar sáttaleið þannig að menn þurfi ekki að fara út í brjáluðum veðrum og hætta lífi sínu og limum og geti haft þokkalega út úr þessu og náð þeim kvóta sem þeim er ætlaður á hverju ári.“