„Þegar þetta er búið er andskotann ekkert fyrir okkur að gera út fiskveiðiárið sem hafandi er orð á. Og jafnvel lengur,“ segir Egill Össurarson, stöðvarstjóri Fiskmarkaðar Vestfjarða á Patreksfirði um stöðuna eftir að strandveiðum lauk í síðustu viku.

Egill segir að lítið verði um að vera þangað til togarinn Vestri komi á Patreksfjörð.

„Við höfum haft Vestra, þeir selja allt sitt hjá okkur.  Þá er það aðallega hann og meðafli af Núpnum sem er útilegulínubátur sem að Oddi gerir út. Við erum að selja meðaflann af þeim bát og hann er að vísu drjúgur stundum. Og á haustin höfum stundum verið að fá einn og einn dragnótarbát af Nesinu, jafnvel í ágúst og september, en það er ekki mikið fast þar,“ lýsir Egill.

Færri aðkomumenn en áður

Aðspurður segir Egill að henda reiður á nákvæmlega hversu margir strandveiðibátar hafi verið gerðir út á starfssvæði fiskmarkaðarins á Patreksfirði.

„Það eru að smá bætast við aðkomubátar yfir sumarið, eins og af Snæfellsnesinu. Við seljum úr bátum sem landa á Bíldudal og Brjánslæk og þegar allt var talið var þetta hrokkið upp fyrir sextíu báta á þessum stöðum samanlagt. Það var að fara um og yfir fimmtíu bara hérna í höfninni. Svo voru tíu til tólf á Bíldudal og tveir eða þrír á Brjánslæk eftir dögum,“ segir Egill.

Færri aðkomumenn voru í strandveiðinni frá Patreksfirði í sumar heldur en áður að sögn Egils.

Sýnu verra fyrir austan

„Það hefur fjölgað bátum hjá heimamönnum. Sumarið í sumar fannst mér einkennast meira af heimamönnum heldur en af aðkomumönnum. Ég held að þetta fyrirheit sem að hálfpartinn var gefið í vor með 48 daga hafi valdið því svolítið,“ segir Egill. Strandveiðimenn fyrir austan sem ella hefðu komið vestur til að ná í einhvern afla þar hafi verið heima núna þar sem fiskurinn gefi sig hins vegar ekki fyrr en seinni part sumars.

„Það er nógu leiðinlegt fyrir þá sem eru hér að veiðunum skuli vera lokið en er þó sýnu verra fyrir þá sem væru að veiða betur þegar komið er fram í júlí og ágúst,“ segir Egill. Sumir séu vonsviknir. „En það er misjafnt eftir mönnum hvort þeir trúðu nokkurn tímann á 48 dagana, það voru ekkert allir sem gerðu það.“